Sameining Búnaðarbanka og Landsbanka

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:35:07 (354)

2000-10-11 13:35:07# 126. lþ. 7.91 fundur 41#B sameining Búnaðarbanka og Landsbanka# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. veldur mér nokkrum vonbrigðum. Hæstv. ráðherra staðfesti að það fara fram viðræður. Um hvað fara fram viðræður? Um frekari sölu ríkisbankanna. En er það ekki svo, herra forseti, að eitt af því sem menn eru að ræða um er að steypa saman bönkunum og skapa nýjan banka? Þá liggur fyrir sá möguleiki a.m.k. að þetta mál muni leiða til þess að það verður til nýr ofurbanki sem hefur markaðshlutverk sem verður að teljast ráðandi og þá er alveg ljóst, herra forseti, að líklegt er að það stríði gegn núgildandi lögum. Þetta mál hlýtur að koma til kasta þingsins og það er þess vegna sem ég leyfi mér undir þessum lið um störf þingsins að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé skynsamlegt, ef þetta er uppi í stöðunni, að notfæra sér þá heimild sem enn er gildandi og fellur ekki úr gildi fyrr en 6. des., þ.e. að leita eftir því að samkeppnisráð gefi fyrir fram álit á því hvort það telji að sú aðferð kynni að stríða gegn lögunum, hvort sú aðgerð kynni að verða til þess að samkeppnisráð mundi hlutast til um það að ógilda slíkan samruna. Ég held að það sé ákaflega nauðsynlegt að hæstv. ráðherra gefi skýra yfirlýsingu um þetta: Eru menn að ræða um að steypa bönkunum saman eða ekki? Ef menn eru að ræða um það, er þá ekki rétt að fara þessa leið?