Viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:41:00 (358)

2000-10-11 13:41:00# 126. lþ. 7.94 fundur 47#B viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins er annars eðlis en sú sem formaður Samfylkingarinnar tók upp fyrir fáum mínútum. Ástæða mín er virðing Alþingis, að vekja athygli á ráðherrabekknum, vekja athygli þingheims á því að hér eru mættir tveir ráðherrar í þingsalinn en einungis einn mun verða til svara við fyrirspurnum sem hafa verið lagðar fram á Alþingi.

Í síðustu viku voru lagðar fram 18 fyrirspurnir frá þingmönnum sem vænst var að yrði svarað á þessum degi. Ég hef fengið lista yfir það hvernig ástatt sé hjá ríkisstjórninni. Þar kemur fram að ráðherrar eru hér og þar um heiminn vegna starfa sinna, þeir eru fjarverandi væntanlega innan lands eða að opna sýningar á höfuðborgarsvæðinu og geta ekki verið með okkur í þinginu í dag. Ég veit vel að það er hluti af störfum ráðherra að sinna erlendum samskiptum, opna sýningar eða hvað það er sem er vinnudagur ráðherranna, en ég vek athygli á því að það þýðir ekkert fyrir okkur að endurskipuleggja með breytingum á þingsköpum þinghaldið ef ráðherrarnir í ríkisstjórninni geta ekki aðlagað störf sín að vinnu þingsins og það sýnist mér að þessi dagur sé áþreifanlegt dæmi um.

Herra forseti. Til viðbótar vil ég vekja athygli á því að af 90 framlögðum málum á ríkisstjórn Íslands fimm.