Viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:45:00 (360)

2000-10-11 13:45:00# 126. lþ. 7.94 fundur 47#B viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, að það er gagnrýnivert hve þunnskipaður ráðherrabekkurinn er. Hæstv. utanrrh. segir að ráðherrar þurfi góðan tíma til undirbúnings svaranna. Sú regla er við lýði að fyrirspurnir sem teknar eru fyrir í fyrirspurnatíma á borð við þann sem hér er í dag þurfa að liggja fyrir í vikunni áður en fyrirspurnin er lögð fram þannig að nægur tími gefst til þess að undirbúa þessi svör. Og staðreyndin er sú að fyrir liggur fjöldi fyrirspurna til ráðherra sem hér eru ekki til staðar.

Menn hafa stundum rætt um nauðsyn þess að breyta þingsköpum til þess að gera þinghaldið allt markvissara. Ég er á því máli að það sem þurfi að breytast séu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Hún þarf að leggja frv. sín fyrr fram en hún gerir þannig að þinginu gefist betri tími til að ræða þau og lendi ekki í tímahraki undir þinglok eins og reyndin hefur orðið allt of oft.

Ég vil sem sagt árétta þessi orð sem hér voru sögð og taka undir þá gagnrýni hve illa ráðherrar í ríkisstjórninni mæta til þessa fyrirspurnatíma.