Viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:46:39 (361)

2000-10-11 13:46:39# 126. lþ. 7.94 fundur 47#B viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég vek athygli á því að það er ekki mætingarskylda í fyrirspurnatíma. Ég vil líka vekja athygli á því að það eru þrír ráðherrar sem ekki hefur verið beint neinni neinni fyrirspurn til, þ.e. forsrh., utanrrh. og samgrh. og það má vera, og það er raunar ljóst, að einhverjir þeirra hefðu að sjálfsögðu getað verið hér í dag.

Ég get hins vegar tekið undir það að það er mjög óheppilegt þegar hittist svona á að svo margir ráðherrar eru erlendis sem raun ber vitni en það er hins vegar algjörlega ljóst að þeir eru þar að skyldustörfum og reyndar eru ýmsir þeirra með varamenn hér inni.

Hvað það varðar að ríkisstjórnin leggi mál fyrr fram þá get ég líka tekið undir það að auðvitað er mjög æskilegt að þau mál komi sem fyrst fram sem ríkisstjórn hyggst leggja fyrir þingið. En ekki er öll nótt úti enn því að við erum bara rétt byrjuð á þinghaldinu nú í haust svo væntanlega vænkast hagur strympu hvað þetta varðar.