Viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:48:08 (362)

2000-10-11 13:48:08# 126. lþ. 7.94 fundur 47#B viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ekkert af því sem hér hefur verið sagt er okkur þingmönnum ókunnugt. Það eru níu ráðherrar sem hafa fengið samanlagt 18 fyrirspurnir í síðustu viku, þær eru orðnar miklu fleiri, ég er bara að tala um þær sem lágu fyrir í síðustu viku. Þremur fyrirspurnum verður svarað í dag af einum ráðherra. Það vill svo til að utanrrh. mætir hér. Það er ekki nein fyrirspurn til hans en það er ánægjulegt að sjá hann hér þótt ekkert verkefni beinist að honum á þessum tímapunkti. (Gripið fram í.) Það er engu verkefni beint til utanrrh. og honum til sóma að vera hér og ég mun ekki gera athugasemdir við það þó að hann velji að víkja á braut.

Það er rétt að það er ekki mætingarskylda þingmanna hér en það er væntanlega skylda ráðherra að svara fyrirspurnum eins fljótt og unnt er. Það eru ekki allir ráðherrarnir í burtu vegna skyldustarfa. Og það sem ég er að gagnrýna er að ríkisstjórnin sé svo fullkomlega ófær um að skipuleggja sig þannig að störf ríkisstjórnarinnar geti fallið að störfum þingsins. Það er búið að liggja lengi fyrir að þingið hefjist 2. október en svo virðist sem ríkisstjórninni komi það fullkomlega á óvart. Hún hefur ekki undirbúið sig, það eru ekki komin fram nema fimm stjfrv. Eftir eina viku hefst hér kjördæmavika og það þýðir að það verður engin vinna við stjfrv. í nefndum fyrr en í nóvember og við vitum hvernig störfin eru þegar nálgast jól og vor. Þetta eru vond vinnubrögð og ég spyr bara: Miðað við svörin sem hér hafa komið fram, eigum við bara að sætta okkur við þetta? Er þetta það sem koma skal eða er einhver vilji fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að sýna þinginu meiri virðingu en endurspeglast í þessari fyrstu viku hér?