Viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:50:15 (363)

2000-10-11 13:50:15# 126. lþ. 7.94 fundur 47#B viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel alveg ástæðulaust að vera að ásaka ríkisstjórnina um virðingarleysi gagnvart þinginu. Ég kannast ekki við það að nein slík sjónarmið séu uppi innan ríkisstjórnar og hef aldrei heyrt það, hvorki í þessari ríkisstjórn né öðrum og hef nú sennilega setið lengur í ríkisstjórn en flestir aðrir ráðherrar. Þannig að mér finnst það vera óþarft.

Það liggur hins vegar fyrir að aðalmál ríkisstjórnarinnar á þessu haustþingi er fjárlagafrv. og þau mál sem tengjast því. Það hefur verið lagt fyrir. Það er mikilvægt að leggja mál fyrir sem fyrst og það mun verða gert. En ég tel eðlilegt að þessi mál séu rædd í forsn. þingsins og ég veit ekki betur en það hafi farið fram mjög vinsamleg samskipti milli ríkisstjórnar og forsn. þingsins við skipulag þingstarfanna og þannig vill ríkisstjórnin að sjálfsögðu standa að málum bæði nú sem endranær. Ég tel því þessa umræðu vera algjörlega ótímabæra og óþarfa og ég veit að hv. þm. hefur skilning á því að það þarf eitthvað að hafa fyrir því að undirbúa svör. Eða eru spurningarnar, ég hef ekki lesið þær, allar svo léttvægar og lítilfenglegar að það þurfi bara ekkert að vinna í þeim? (Gripið fram í.) Ja, það eru margar spurningar sem liggja fyrir iðn.- og viðskrh., þetta eru ekki þær einu. Og það var sérstaklega rætt á ríkisstjórnarfundi að það færi fram mikið starf í ráðuneytum núna við að undirbúa þessi svör. Ég bið hv. þingmenn að hafa skilning á því að Stjórnarráðið hefur ekki allt of mikið af starfskröftum. Það er ekki jafnmargt fólk þar og stundum virðist koma fram í umræðunni.