Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:54:46 (366)

2000-10-11 13:54:46# 126. lþ. 7.1 fundur 63. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Þegar Alþingi kom saman sl. haust bar ég fram fyrirspurn til tveggja ráðherra um það hvernig þeir hygðust vinna úr þeim ákvæðum 6. liðar ályktunar um byggðamál, að skilgreina ætti þau verkefni ráðuneyta, undirstofnana og fyrirtækja sem unnt væri að vinna á landsbyggðinni, og að möguleikar upplýsingatækninnar verði þá nýttir til hins ýtrasta, eins og þar segir.

Skýrsla Iðntæknistofnunar var þá nýkomin út og óspart vísað til hennar. Þáv. hæstv. iðn.- og viðskrh. taldi í svari sínu fyrir ári síðan, herra forseti, að næstu skref, þ.e. til síðustu áramóta, væru þau að Iðntæknistofnun, í samvinnu við Byggðastofnun, ynni að því með ráðuneytunum að skilgreina þessi verkefni þannig að þau yrðu flutningshæf fljótlega upp úr áramótunum. Síðustu áramótum, herra forseti.

En þrátt fyrir eftirrekstur vegna einstakra loforða, svo sem loforða forsrh. gagnvart Ólafsfirði, og þrátt fyrir marga umræðuna hér á Alþingi um mikilvægi þess að stjórnvöld stæðu við þennan kafla byggðaáætlunar sinnar þá kom það fram í sumar hjá núv. hæstv. iðn.- og viðskrh. að enn hefði lítil vinna farið fram vegna þessara mála.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara um það mörgum orðum hve mikilvægt það er að stjórnvöld framfylgi stefnu sinni í málinu vegna þess hve mikilvægt það er fyrir landsbyggðina að fá að fylgjast með í þeirri þróun sem er í gangi. Það hefur oft verið rætt og verður áfram rætt. Á þessari stundu ætla ég heldur svo sem ekki að ræða hversu pínlegt það er í rauninni orðið hve lítið hefur verið gert og hve skilningur stjórnvalda á málinu hefur reynst takmarkaður. Við í Samfylkingunni teljum það hins vegar nauðsynlegt að kalla fram nú strax í þingbyrjun hvernig þessi mál standa.

Uppgjöf hæstv. forsrh. birtist í því að hann skildi Ólafsfjörð eftir í fanginu á hæstv. iðn.- og viðskrh. Það væri fróðlegt að vita hvort svo er farið um fleiri, hvort ráðherrarnir hafi einfaldlega gefist upp fyrir verkefninu eða vísað því á ráðherra byggðamála eins og hæstv. forsrh. gerði.

En fyrirspurn mín, herra forseti, er þessi, og ég vil geta þess að það tímabil sem gildandi byggðaáætlun stendur yfir er nú hálfnað og vel það þannig að það er tímabært að bretta upp ermar:

1. Hafa þau verkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta, undirstofnana þeirra eða fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni verið skilgreind, sbr. 6. tölul. í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999?

2. Hvenær er gert ráð fyrir að ,,tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta`` verði lagðar fram?