Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:04:20 (369)

2000-10-11 14:04:20# 126. lþ. 7.1 fundur 63. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég hef ekki gert mér grein fyrir því að þessir hlutir séu að virka í öfuga átt, að það sé verið að flytja þetta allt frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins eins og kom fram í ræðu hv. þm. Drífu Hjartardóttur. En aðeins vegna umræðu um fjarvinnsluverkefnin og svar hæstv. iðnrh. áðan finnst mér eins og ég hafi verið að uppgötva 2000-vandann núna, að 2000-vandinn sem við Íslendingar héldum að við hefðum sloppið við sé í raun og veru og hafi verið miklu meiri en við gerum okkur grein fyrir. Mér sýnist að bæði tímaskyn og tímaklukka hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnarinnar allrar hafi stoppað vegna þess að í umræðum um flutning fjarvinnsluverkefna út á land á fundi í Ólafsfirði 6. mars sl. sagði hæstv. iðnrh. m.a. þetta, með leyfi forseta: ,,Í lok þessa mánaðar eða fyrir lok þessa mánaðar þá trúi ég því að það verði eitthvað að frétta`` af flutningi fjarvinnsluverkefna til Ólafsfjarðar. Í mínum huga og samkvæmt klukku minni er 6. mars liðinn þannig að ég spyr, herra forseti: Væri ekki ástæða til að grípa til einhverra ráðstafana vegna þessa 2000-vanda?