Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:05:40 (370)

2000-10-11 14:05:40# 126. lþ. 7.1 fundur 63. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., MS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:05]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ljóst er að möguleikar á fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni eru fyrir hendi, m.a. með hagnýtingu upplýsingatækninnar og fjarvinnslu eins og fram hefur komið. Þeir möguleikar eiga eftir að aukast á næstunni. Hins vegar ber að varast að ræða þessi mál þannig að lausnin sé algild fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni eins og mér hefur stundum fundist umræðan bera keim af. Það ber líka að varast að fara bratt í umræðuna þannig að gefin verði fölsk fyrirheit og fólk á landsbyggðinni sjái einhverja allsherjarlausn á leiðinni. Þetta tekur allt sinn tíma og ber auðvitað að undirbúa vel.

Hvað varðar stjórnvöld í þessum efnum verða þau að hafa ákveðinn drifkraft og fylgja eftir þeirri stefnumótun sem fyrir liggur til að koma henni til framkvæmda. Einnig ber að líta til atvinnulífsins í heild, til einkaaðila, og þar liggja ýmsir möguleikar, t.d. í tæknistörfum, fjármálastarfsemi o.s.frv. Ég vil hins vegar hvetja stjórnvöld til dáða í þessum efnum. Hæstv. viðskrh. hefur svarað fyrir sig og mér sýnist að málin séu í þokkalegum farvegi og vonast ég til að efndir gangi eftir.