Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:13:07 (376)

2000-10-11 14:13:07# 126. lþ. 7.1 fundur 63. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðn.- og viðskrh. fyrir svör hennar. Hún segir okkur frá því að hún sé fyrir sitt leyti að taka utan um ákveðna þætti og það er vel. Hins vegar er alveg ljóst það sem hefur ítrekað komið fram í umræðunni að það kemur yfirleitt of seint og of lítið.

Þó að umræðan í dag sé stutt hefur hún leitt ýmislegt í ljós sem ástæða er til að ræða mun ítarlegar. Við veltum því fyrir okkur af hverju einkaaðilar koma auga á þá kosti sem því fylgja að flytja verkefni út á land sem opinberir aðilar koma ekki auga á. Koma opinberir aðilar ekki auga á mikilvægi þess að hafa stöðugt vinnuafl? Koma opinberir aðilar ekki auga á kosti þess að fá ódýrt húsnæði? Koma opinberir aðilar ekki auga á þessa hluti af því að þeir þurfa þess ekki? Búa þeir e.t.v. við þær aðstæður að þeir þurfa ekki að gæta þeirrar hagkvæmni sem einkaaðilar eru oft og tíðum að leita eftir? Þetta mætti verða okkur öllum til umhugsunar nú, ekki síst þar sem fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar er til meðferðar.

Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvernig stendur á því að þessi tala, 3 millj., hringsólar yfir salinn í hvert sinn sem farið er að ræða verkefni sem flytja á út á land eða stuðning við það sem þar er að gerast. Við erum nefnilega stundum að tala um svo sárgrætilega lítil verkefni. Þau eru jafnan tiltölulega lítil og fyrir tiltölulega fáa en það munar um þau samt og ég er sammála hv. þm. Einari Guðfinnssyni um að auðvitað á að skoða þessa tölu, auðvitað á að skoða hvar þessi mörk eiga að liggja. Við eigum að hafa á því skoðun hvernig við viljum hafa þetta en vera ekki nauðug til annarra ákvarðana en þeirra sem okkur þykja góðar vegna gildandi laga. Við eigum þá bara að breyta þeim lögum á hv. Alþingi.

Herra forseti. Að lokum: Er hætta á því að aðrir ráðherrar horfi til þess sem hæstv. iðn.- og viðskrh. er að gera sem eins konar fjarvistarsönnun fyrir sjálfa sig og hafist lítið að?