Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:15:30 (377)

2000-10-11 14:15:30# 126. lþ. 7.1 fundur 63. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það að mér finnst hv. þingmenn sýna mér mikla þolinmæði í þessu máli því að ég hefði gjarnan viljað standa hér og geta greint frá einhverjum alvöruárangri á þessu sviði. En mér finnst að það sé varla hægt að tala um að svo sé þó að verið sé að vinna að ýmsu og auðvitað trúi ég því enn þá að eitthvað verði úr þessu sem geti komið landsbyggðinni til góða.

En af því að ég er spurð um það svona u.þ.b. einu sinni á dag hvað sé að frétta af þessu síðan í mars þá held ég að ég verði að fara að greina eitthvað nánar frá því. Það sem ég var að tala um á fundinum í Ólafsfirði var landskrá lausafjármuna sem var verkefni og er verkefni sem búið er að móta og er til umfjöllunar í dómsmrn. Það verður að spyrjast fyrir um það þar. En þetta er það sem ég var að tala um og get ég ekkert komist hjá því að greina frá því hér.

Um það hvort við séum nýbúin að uppgötva þetta ákvæði um 3 milljónir á þremur árum þá álít ég að svo sé í raun með býsna marga, að þetta ákvæði um 3 milljónir á þremur árum, sem er nú hreint ekki mikill peningur, sé atriði sem hafi haft verulega mikið að segja í sambandi við það að flytja verkefni til ákveðinna einkaaðila út á land.

Um það sem hv. þm. Þuríður Backman sagði, að gott væri ef hægt væri að halda áfram að flytja ríkisstofnanir út á land, þá veit ég ekki betur en að hennar flokkur sé andvígur því. Ég hef heyrt formann vinstri grænna segja það í viðtali í fjölmiðlum að hann telji ekki að það eigi að flytja ríkisstofnanir út á land. Þannig að þetta er nú allt saman dálítið einkennilegt. Þegar til kastanna kemur vantar raunverulegan stuðning við það að flytja opinber störf út á land.