Samkeppni olíufélaganna

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:23:44 (380)

2000-10-11 14:23:44# 126. lþ. 7.2 fundur 18. mál: #A samkeppni olíufélaganna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er ágætt að heyra það að ráðherrann hefur óskað eftir upplýsingum um þetta, að verðlagning verði könnuð og samráð.

Álagning olíufélaganna er gjörsamlega óþekkt stærð nema að því leyti sem menn hafa reynt að reikna sig niður á álagninguna með því að brjóta bensínverðið niður, en það hafa t.d. FÍB-aðilar gert af og til þegar umræðan hefur verið sem hæst.

En ég bað um orðið hér til þess að benda á spurningu sem ég hefði kosið að fyrirspyrjandi hefði lagt fram með þeim þremur sem hér liggja fyrir og hún er: Hvernig stendur á því að þegar heimsmarkaðsverð hækkar þá er eins og engar birgðir séu til og hækkunin skilar sér næstum strax til neytenda hjá öllum olíufélögunum, en þegar heimsmarkaðsverð lækkar þá virðast miklar birgðir til hjá öllum olíufélögunum því það tekur langan tíma að lækkunin skili sér til neytenda? Að þessu hefur verið hæðst svo lengi sem ég hef ekið bíl.