Samkeppni olíufélaganna

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:25:01 (381)

2000-10-11 14:25:01# 126. lþ. 7.2 fundur 18. mál: #A samkeppni olíufélaganna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Olíumarkaðurinn er fákeppnismarkaður og hefur verið það lengi. Það hafa verið fá stór olíufélög sem algjörlega hafa ráðið ferðinni á þessum markaði og þó ekkert sé fullyrt um samráð eða neitt slíkt þá liggur fyrir að olíufélögin hafa í áratugi haft nánast sömu verðskrá. Þetta er oft á tíðum afleiðing af fákeppnismarkaði.

Hins vegar kemur það mér sjálfum dálítið spánskt fyrir sjónir að hér skuli fulltrúi Sjálfstfl. skyndilega standa upp og spyrja um þessa hluti því að sá flokkur hefur mjög þvælst fyrir allri almennri umræðu um samkeppnismál og hann þvældist fyrir þegar var verið að reyna að setja öflug samkeppnislög í vor. En sú fyrirspurn sem hér var lögð fram segir mér það að Sjálfstfl. sé eitthvað að reyna að hysja upp um sig buxurnar í þessum málum og ætli að mæta til þings af meiri krafti og meiri hörku í þessum efnum og reyna þá að víkja af þeim vegi sem sá flokkur hefur lengi varðað, þ.e. að gæta hagsmuna fárra.