Alþjóðleg viðskiptafélög

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:41:46 (388)

2000-10-11 14:41:46# 126. lþ. 7.3 fundur 37. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þessi svör. Hér kemur fram að 45 millj. kr. hefur annaðhvort þegar verið varið eða er áformað að verja til þess verkefnis að auglýsa sérstakar skattaívilnanir til handa alþjóðaviðskiptafélögum. Þetta eru miklir fjármunir, ekki síst þegar haft er í huga hversu vafasöm starfsemi, að mínum dómi, er hér á ferð.

Það kom einnig fram í máli hæstv. ráðherra að svo er, að við erum á gráu svæði. Þessi mál eru til athugunar hjá OECD. Þar er sérstök nefnd sem um þessi mál fjallar og ekki er ljóst hvort Íslendingar muni lenda á sérstökum bannlista einmitt vegna þessa máls, vegna þess að við séum að ívilna fyrirtækjum á óeðlilegan hátt. Mér finnst spurningin sem við stöndum frammi fyrir ekki einvörðungu tæknileg og ekki einvörðungu snúast um hvað kemur út úr þessu rannsóknarstarfi á vegum OECD. Hún snýst einnig um hvað okkur sjálfum finnst vera boðlegt. Finnst okkur það boðlegt að bjóða upp á skatta\-ívilnanir af þessu tagi og taka þátt í samkeppni niður á við? Við erum að mismuna þarna stórlega. Í stað þess að fyrirtæki greiði 30% skatt eins og fyrirtæki gera almennt í landinu greiða alþjóðaviðskiptafélögin 5% skatt og eins og ég gat um í spurningu minni eru þau undanþegin stimpilgjöldum, þau eru undanþegin eignarsköttum. Mér finnst þetta óeðlilegt. Ég hefði skilið mjög eindregna talsmenn frjálshyggjunnar sem gengju fram með þessum hætti, en hina sem eru að bisa við að kenna sig við einhvers konar miðju í stjórnmálum skil ég miklu síður.