Afnám skattleysissvæða

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:47:10 (390)

2000-10-11 14:47:10# 126. lþ. 8.4 fundur 6. mál: #A afnám skattleysissvæða# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[14:47]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem kveður á um afnám skattleysissvæða en flm. ásamt mér eru hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir afnámi skattleysissvæða.``

Í grg. er að því vikið að víðs vegar um heiminn fari nú fram umræða um hvernig unnt sé að stemma stigu við því að fjármagnseigendur og fyrirtæki komi sér hjá því að greiða skatta til samfélagsins. Svokallaðar skattaparadísir eða aflandsumdæmi, sem svo eru nefnd, hafa víða sprottið upp og hefur þeim fjölgað mjög á undanförnum árum. Vegna þrýstings frá almenningi hefur málið verið tekið upp í ýmsum alþjóðastofnunum. Á ráðherrafundi OECD árið 1998 var ákveðið að láta fara fram á því könnun hvernig hægt væri að hamla gegn því að skattleysissvæði græfu undan skattkerfum þjóða. Um það var síðan gert samkomulag að beina því til skattleysissvæðanna að þau störfuðu samkvæmt tilteknum lágmarksreglum. Ýmsum þykja þær reglur ganga allt of skammt en engu að síður gengu þær það langt að Sviss og Lúxemborg neituðu að undirrita samkomulagið. Í kjölfarið lýstu fulltrúar sex þessara skattleysissvæða því yfir að brugðist yrði jákvætt við tilmælum frá OECD. Á fundi OECD í júní árið 2000 var lýst ánægju með þær jákvæðu undirtektir sem borist höfðu og í skýrslu, sem birt var í tengslum við fundinn, voru þau svæði undanskilin sem heitið höfðu því að gera lágmarksúrbætur.

Enn eru 35 skattleysissvæði á lista OECD yfir svæði sem neita að verða við tilmælum OECD. Þau eru: Andorra, Angvilla, Antígva og Barbúda, Bahamaeyjar, Barein, Barbadoseyjar, Belís, Bresku Jómfrúaeyjar, Cookseyjar, Dóminíska lýðveldið, Gíbraltar, Ermarsundseyjarnar Guernsey, Sark og Alderney, Hollensku Antillur, Jersey, Líbería, Liechtenstein, Maldíveyjar, Marshalleyjar, Mónakó, Montserrat, Mön, Nieul, Nárú, Panama, Samóa, Seychelleseyjar, Sankti Lúsía, Sankti Vinsent og Grenadíneyjar, Sankti Kristófer og Nevis, Tonga, Turk- og Caicoseyjar, Vanúatú og Bandarísku Jómfrúaeyjar.

Íslensk fyrirtæki hafa á síðustu árum í vaxandi mæli sýnt á því áhuga að nýta sér skattleysisvæði og í fylgiskjali með þessari tillögu er grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 6. janúar 2000 þar sem fjallað er um dótturfélag Landsbanka Íslands á eynni Guernsey á Ermarsundi. En eins og menn kunna að hafa tekið eftir var Guernsey nefnd hér í þessari upptalningu, þ.e. í upptalningu á þeim svæðum sem neita að verða við tilmælum OECD um að fylgja tilteknum lágmarksreglum.

Í greininni kemur ekki fram sú aukna gagnrýni á fyrirtæki og fjármagnseigendur sem reyna að skjóta sér undan samfélagslegri ábyrgð með því að greiða ekki til samfélagsins eins og aðrir gera. Hins vegar er því lýst á opinskáan hátt hvert sé aðdráttarafl skattleysissvæða á borð við Guernsey. Og það er það sem gerir þessa grein sérstaklega athyglisverða.

Ég ætla ekki að lesa þessa grein hér upp í ræðustóli en vek athygli á nokkrum þáttum sem þar koma fram. Þar er rætt við nokkra fulltrúa bankakerfisins og þá sérstaklega Landsbankans, þar á meðal Gunnar Þ. Andersen, framkvæmdastjóra Alþjóða- og fjármálasviðs Landsbanka Íslands og stjórnarformann í Landsbanka PCC Guernsey Ltd. Hann segir hér m.a., með leyfi forseta:

,,,,Við skoðuðum mörg mismunandi umdæmi, svo sem Lúxemborg, Írland, Jersey og Guernsey, og settum ákveðin skilyrði um stöðugleika og ímynd, kostnað og annað í þeim dúr. Lúxemborg og Írland voru strax útilokuð vegna kostnaðar. Í Lúxemborg var útlánastarfsemi háð ýmsum kvöðum og höftum og á Írlandi fylgdi kvöð um að ráða ákveðinn fjölda starfsmanna, sem við töldum okkur ekki þurfa í upphafi. Þá stóðu Guernsey og Jersey eftir, mjög sambærileg umhverfi, en það var deildaskipta félagaformið sem notað er á Guernsey sem réð endanlegum úrslitum,`` segir Gunnar.``

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 6. janúar sl.

Hér kemur m.a. fram að menn hafi ekki viljað halda til Lúxemborgar eða Írlands vegna þess að þar séu settar kvaðir á fyrirtæki um að ráða tiltekinn fjölda starfsmanna. Það vakti náttúrlega ekki fyrir Landsbankanum að stofna þarna til mannfrekrar starfsemi, væntanlega var hann fyrst og fremst að búa til heimilisfang fyrir starfsemi sína. Spurningin er ekki um að reka þar mannfreka stofnun heldur að skapa þarna heimilisfang.

Síðar í þessari grein er eftirfarandi haft eftir Halldóri J. Kristjánssyni, bankastjóra Landsbanka Íslands. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það sem fyrst og fremst vakti fyrir okkur þegar ákveðið var að bjóða upp á þessa tegund þjónustu var að við vildum breikka alþjóðlega þjónustu okkar og gefa kost á lögsögu, eins og Guernsey, sem sérhæfir sig í því að veita hagstæð skattaleg skilyrði til rekstrar og býður upp á einfaldar og ódýrar lausnir í alþjóðlegum viðskiptum. Við sáum mjög vaxandi þörf fyrir þessa þjónustu, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum, ...``

Sem sagt ,,hagstæð skattaleg skilyrði``, hér er nauðsyn talin vera á því að skapa fyrirtækjum hagstæða skattalega þjónustu.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Landsbréfa, er einnig kallaður til vitnis í þessari blaðagrein. hann segir m.a., með leyfi forseta:

,,,,Í dag er það orðinn sjálfsagður hluti af þjónustuframboði banka að bjóða fjárfestum sínum upp á aflandsþjónustu í einhverju aflandsumdæmi. Langflestir stærri bankar í heiminum eru með starfsemi í slíku umdæmi og sumir þeirra í mörgum,`` segir Sigurður Atli.``

En síðan er haldið áfram og enn vitna ég í greinina, með leyfi forseta:

,,Hann segir ástæðurnar fyrir notkun aflandsþjónustu vera margvíslegar. Ein þeirra sé sú að fjármálaviðskipti þeirra viðskiptavina sem búa og eiga eignir víðs vegar um heiminn séu mun auðveldari í aflandsumdæmi með þekktu fjármálalegu umhverfi hvað varðar eftirlit, bankaleynd og skattalega umgjörð. Þetta sé því hagkvæmari leið fyrir marga sem ekki vilja vera háðir því að eiga sín viðskipti eingöngu á Íslandi.``

Takið eftir þessu orðalagi, herra forseti. Hér er talað um þekkt fjármálalegt umhverfi hvað varðar eftirlit, bankaleynd og skattalega umgjörð. Einmitt þetta hefur OECD verið að fást við og sett lágmarksskilyrði og lágmarksreglur sem Guernsey meðal annarra svæða neitar að verða við, neitar að hlíta. Á þau mið rær Landsbanki Íslands og menn tala opinskátt og kinnroðalaust að því virðist um þessa hluti.

Í greininni segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Halldór bætir við að aflandsþjónustan sé einmitt mjög tengd þeirri þjónustu Landsbankans sem kölluð er sérbankaþjónusta (e. private banking). Sú tegund þjónustu er einkum ætluð þeim einstaklingum sem starfa og búa í ólíkum ríkjum og eiga eignir í fleiri en einu ríki. Halldór segir sérbankaþjónustuna miðast að því að auðvelda þessum einstaklingum að eiga eignir og stunda atvinnu og búa á ólíkum stöðum.``

Áfram segir síðan í þessari grein, með leyfi forseta, og er enn vitnað í sama mann:

,,Bankaleyndin er mikilvæg af mörgum ástæðum. Hún er til dæmis mikilvæg þeim sem vilja halda fjárfestingum sínum og öðrum ákvörðunum fyrir sjálfa sig. Við þekkjum það á Íslandi að margir einstaklingar vilja ekki að aðrir viti eitt eða neitt um þeirra stærri mál, af eðlilegum ástæðum.``

Þetta er hið eðlilegasta mál, að við þekkjum það að á Íslandi eru margir einstaklingar sem ekki vilja að menn viti um þeirra stærri mál og þess vegna skal haldið til Guernseyjar þar sem er þægilegt skattalegt umhverfi og reglur aðrar hvað varðar bankaleynd og aðra þætti.

Enn segir í greininni, með leyfi forseta:

,,Hvað hið hagstæða skattalega umhverfi varðar segir hann að það séu einna helst stórfyrirtæki sem skráð eru á mörkuðum sem sækist eftir að nýta sér þá þjónustu.

Þau nýta sér þetta til að ná betri stýringu, m.a. á skattskyldum sínum í alþjóðlegu umhverfi. Það er jú eitt af því sem svona lögsaga getur auðveldað, þ.e. stjórnun í mjög fjölbreyttu og flóknu umhverfi, til dæmis hjá stórfyrirtækjum sem reka starfsemi í nánast hverju einasta Evrópuríki, með ólíkum skattareglum og ólíkum frádráttarmöguleikum o.þ.h. Erfitt getur verið fyrir fjölþjóðlegt fyrirtæki að stýra slíku og þar af leiðandi hentugt fyrir það að nýta sér umhverfi eins og á Guernsey. Það þýðir ekki að fyrirtækið sé að skjóta sér undan skatti, heldur reynir það að stýra eignasafninu m.a. út frá skattskuldbindingum og væntanlega með það að markmiði að hámarka arðsemi og þá að sjálfsögðu að lágmarka gjöld sem leggjast á starfsemina.``

Hér er fullyrt að fyrirtækin séu ekki að reyna að skjóta sér undan skattaskyldum en jafnframt er sagt, og fylgir fast á eftir, að fyrirtækin hljóti að stýra eignasafninu út frá skattskuldbindingum með það að markmiði að hámarka arðsemi og lágmarka gjöld sem leggjast á starfsemina. Er þetta ekki tilraun til að skjóta sér undan þeirri kvöð að greiða skatta til samfélagsins? Ég fæ ekki betur skilið.

Í þessari grein er einnig vikið að svokölluðum Fortuna-sjóðum en hér segir m.a á þá leið að rekstur Fortuna-sjóðanna hafi gengið vel það sem af er og Landsbankamenn séu farnir að huga að fleiri leiðum til að nýta og bæta við starfsemina á Guernsey. Þannig telur Halldór hugsanlegt að hluti útlánastarfseminnar verði, af samkeppnisástæðum, rekinn frá Guernsey.

Þá gerir hann ráð fyrir að fleiri fjárfestar muni nýta sér þann möguleika að setja upp sérhæfð fjárfestingarfélög á Guernsey og þá í samstarfi við Landsbankann.

Við erum að tala um svæði sem neitar að verða við tilmælum OECD um lámarksreglur í fjármálastarfsemi. Hér eru menn kinnroðalaust, bankastjóri í einum stærsta banka landsins, að dásama þessar ráðstafanir. Reyndar skal það leiðrétt að það er ekki bankastjórinn sem hér var vitnað til heldur Árni Jón Árnason, sjóðsstjóri Fortuna-sjóðanna hjá Landsbréfum. Hann heldur þessum sjónarmiðum fram en hins vegar hefur bankastjórinn Halldór Kristjánsson dásamað þessa þjónsutu og ég vitnaði til hans hér áðan.

Talsmenn bankanna segja enn fremur og hér er vitnað í Halldór J. Kristjánsson, bankastjóra Landsbankans, með leyfi forseta, :

,,,,Við viljum bjóða Íslendingum sem búsettir eru erlendis upp á fjármálaþjónustu af þessu tagi,`` segir Halldór, ,,enda höfum við fundið fyrir töluvert miklum áhuga á því í sífellt stækkandi hópi Íslendinga sem gegna ábyrgðarstörfum erlendis og hafa mikil alþjóðleg tengsl.``

Hann álítur að breyting sé að verða á þessum markaði.``

Herra forseti. Hvaða hóp Íslendinga erum við hér að tala um? Það kann að vera rétt að það sé að verða breyting á þessum markaði og að sá hópur sem hér er skírskotað til sé að stækka. Við erum að tala um hóp auðkýfinga, við erum að tala um hóp íslenskra auðmanna sem á að veita sérþjónustu af þessu tagi til að auðvelda þeim að skjóta sér undan eðlilegum samfélagslegum skyldum, að greiða til samfélagsins eins og þeim ber að gera. Það er óeðlilegt í hæsta máta að Landsbankinn, banki að meiri hluta í eign íslensku þjóðarinnar, skuli hafa forgöngu í þessu efni.