Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:28:02 (394)

2000-10-11 15:28:02# 126. lþ. 8.5 fundur 10. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. landbrh. tekur þessari þáltill. afar vel. En ég get ekki látið hjá líða að koma í andsvar við hæstv. ráðherra vegna þess sem fram kemur í máli hans, þ.e. að hann sjálfur á afar erfitt með að læra muninn á því sem er vistvænt og því sem er lífrænt. Það verður að ítreka það hér að þó að við Íslendingar vitum að landbúnaður okkar er hreinn landbúnaður þá vitum við líka að við fáum ekki að selja vörur okkar sem lífrænar nema þær verði vottaðar sem slíkar af viðurkenndum vottunarstofum. Slíkar vottunarstofur vinna eftir alþjóðlegum stöðlum og það er alveg sama hvað við segjum um okkar hreinu og góðu landbúnaðarvörur, þær getum við aldrei selt, hvorki á neytendamarkaði hér né á neytendamarkaði í útlöndum sem lífrænar nema þær séu vottaðar. Það liggur við, herra forseti, að mig langi að leggja það til hér að hæstv. ráðherrar og allir hv. alþingimenn hætti að nota hugtakið vistvænn landbúnaður og vistvæn landbúnaðarframleiðsla því sú framleiðsla sem við teljum vera vistvæna lendir í hillunum með verksmiðjuframleidda góssinu í útlöndum þegar hún er komin á neytendamarkað þar.

Og þó við búum smátt og fagurt, búum við í samfélagi þjóða og þar hafa staðlarnir verið ákveðnir og undir þá staðla þurfum við að beygja okkur og við þurfum ekkert voðalega mikið að hafa fyrir því að gera það af því við eigum hreint land og fagra náttúru og getum ræktað þessar góðu og sérstöku vörur.