Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:31:59 (396)

2000-10-11 15:31:59# 126. lþ. 8.5 fundur 10. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að í hjarta sínu er hæstv. landbrh. alveg sammála þeim grundvallarreglum sem gilda í sambandi við lífræna ræktun. Ég ætla ekki að útleggja orð hans á þann veg að hann ætli að fara að berjast fyrir því að eiturefni verði leyfð í lífrænni ræktun því að það verður auðvitað aldrei heimilað. Lífræn ræktun er ræktun án eiturefna og án tilbúinna áburðarefna. Það eru reglurnar og ég vona satt að segja, herra forseti, að ekki megi skilja orð hæstv. ráðherra svo að hann ætli að fara að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að gildandi stöðlum verði breytt. Við verðum að hætta að bera nokkurn kinnroða fyrir framleiðslu okkar. Við eigum að stíga skrefið til fulls, efla lífrænt vottaða framleiðslu og þannig öðlast trygga stöðu á mörkuðum, bæði heima og í útlöndum. Ég minni á að stærstu verslanakeðjur í Bretlandi eru um þessar mundir að lækka talsvert mikið verð á lífrænt ræktuðum afurðum til neytenda sinna. Nú er talað um að verslun í Bretlandi með lífrænt ræktaðar vörur sé á hraðri uppleið og í kjölfar hvers er það? Jú, í kjölfar ýmissa sýkinga í matvælum sem rekja má til aðferða sem eru ónáttúrulegar. Hæstv. landbrh. á að vera stoltur af hreinum afurðum okkar. Hann á að leggjast á sveif með þeim sem vilja berjast fyrir því að magn lífrænt vottaðra vara verði aukið á markaðnum og ekki að fara að beita sér fyrir því af neinu afli að stöðlunum verði breytt eða kröfurnar í lífrænu ræktuninni verði minnkaðar.