Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:36:08 (398)

2000-10-11 15:36:08# 126. lþ. 8.5 fundur 10. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég skal leitast við að vera stuttorð.

Ég vil byrja á því að þakka þann stuðning sem þessi tillaga hefur fengið og sérstaklega frá hæstv. landbrh. Ég minni á að veturinn 1997--1998 var lögð fram till. til þál. um framleiðslu íslenskra matvæla og forsendur sjálfbærrar þróunar sem Gísli S. Einarsson var 1. flm. að og ég var meðflutningsmaður að. Hún hljóðaði upp á það að við settum okkur ákveðið markmið, takmark um hversu háa prósentu við eigum að ná í lífrænni ræktun á ákveðnu tímabili. Þetta gerðu Danir. Þeir settu sér að 20% af landbúnaðarframleiðslunni yrði lífrænt vottað á ákveðnu tímabili, að öll framleiðslan yrði komin inn í þann farveg. Mér finnst ástæða til að skoða slíka þáltill. aftur, að við setjum okkur ákveðið markmið í lífrænni ræktun. Því miður, þrátt fyrir góða velgengni bænda eins og bóndans í Vallanesi á Héraði, sem er frumkvöðull og duglegur í vinnu sinni og mjög áhugasamur varðandi moltugerð og annað sem hann getur notað í stað tilbúins áburðar og hefur náð mjög góðum árangri, þá er framleiðslukostnaður hærri en við hefðbundinn búskap. Þrátt fyrir þessa góðu velgengi hefur hann ekki náð að vekja áhuga annarra bænda á svæðinu hvað þá þó víðar væri leitað þannig að annað þarf að koma til.

Það er skortur á lífrænt vottuðum vörum innan lands og það er eftirspurn eftir þessum íslensku vörum erlendis. Mér finnst að það eigi að vera okkar að reyna að uppfylla þessar kröfur. Það þarf að efla rannsóknir til að styðja lífræna framleiðslu og fá þá samanburð á gæðum þessarar vöru og hefðbundinnar vöru. Það þarf að efla rannsóknir á jarðvegi, á lífrænum áburði, á belgjurtarækt og vegna endurræktunar túna. Það mætti hafa hér langan lista en ég ætla ekki að fara yfir hann vegna tímaskorts.

Herra forseti. Sérstakir staðlar eru fyrir lífrænt ræktaðar búvörur og þetta á við um allar vörutegundir. Staðlarnir eru í sífelldri endurskoðun. Þeir eru gerðir af þeim bændum sem stunda lífræna ræktun þannig að staðlarnir eru innan þeirra marka sem bændur alls staðar í heiminum treysta sér til að uppfylla, allt frá Alaska og suður úr.

Herra forseti. Ég vona að þessi þáltill. fái góða umfjöllun í landbn. og verði rædd betur síðar.