Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:40:43 (399)

2000-10-11 15:40:43# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur nokkrum sinnum hafið máls á málefnum Ríkisútvarpsins á vettvangi Alþingis á undanförnum árum og í þeirri umræðu hefur hæstv. menntmrh. verið gagnrýndur, t.d. fyrir að standa ekki vörð um að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og fyrir að eiga þátt í að veikja innviði hennar, m.a. með því að beita pólitískum áhrifum sínum við mannaráðningar. Þá hefur hæstv. ráðherra einnig verið gagnrýndur fyrir yfirlýstan vilja sinn til þess að einkavæða veigamikla þætti í starfsemi Ríkisútvarpsins og að lokum fyrir framtíðarsýnina að vilja breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Enn kemur gagnrýni af sama toga úr þessum stóli. Ljóst er að framlag ríkisins til Ríkisútvarpsins samkvæmt fjárlagafrv. næsta árs er hið sama og á yfirstandandi ári. Þar er sagt fullum fetum að miðað sé við að rekstrarumfang dragist saman sem nemur verðlagsþróun. Þar með er líka ljóst að ekki verður um að ræða hækkun afnotagjalda. Í fjárlagafrv. kemur fram að áfram sé gert ráð fyrir að hagrætt verði í rekstri svo takast megi að ná jafnvægi eins og það er orðað, nokkuð sem forsvarsmenn Ríkisútvarpsins segja ómögulegt umfram það sem þegar hefur verið gert.

Á Norðurlöndunum er sama fyrirkomulag afnotagjalda og hér á landi nema hvað þar eru afnotagjöldin bundin neysluvísitölu. Á síðustu tíu árum hefur hún hækkað um tæp 40% en á sama tíma hafa afnotagjöld Ríkisútvarpsins einungis hækkað um 17%. Dæmið lítur svo enn verr út þegar launaþróunin er skoðuð því að frá árinu 1990 til ágúst á þessu ári hefur launavísitalan hækkað um 70%. Það þarf enga snillinga, herra forseti, til að sjá að ekki er mikið fé aflögu til að kaupa eða framleiða vandað dagskrárefni þegar laun starfsmanna hafa verið greidd, en 65% af útgjöldum Ríkisútvarpsins eru laun og launatengd gjöld.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig lítur hann á það ástand sem kallað hefur verið fjárhagsleg spennitreyja og hvar telur hann réttast að dregið verði úr rekstrarumfangi? Kannski í dreifikerfinu? Er réttlætanlegt að mati hæstv. ráðherra að fólk greiði afnotagjald án þess að geta notið dagskrárinnar? Ég minni á það að a.m.k. 77 heimili í landinu njóta ekki útsendinga ríkissjónvarpsins. Hvernig kemur það heim og saman við byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar? Hvernig lítur ráðherrann á það að halli Ríkisútvarpsins sé fjármagnaður úr framkvæmdasjóði stofnunarinnar og hvernig í ósköpunum sér ráðherrann það fyrir sér að einkaaðilar ættu að geta rekið stofnun sem hefur þær lögbundnu skyldur sem Ríkisútvarpið hefur fyrir minna fé en fer til rekstrarins í núverandi mynd?

Herra forseti. Ríkisútvarpið hefur verið gagnrýnt fyrir metnaðarleysi í dagskrárgerð og sú gagnrýni á fullan rétt á sér. En þeir einkaaðilar sem stunda nú sjónvarps- eða útvarpsrekstur hafa ekki beint sýnt að þeir séu samkeppnisfærir. Stöð 2 innheimtir tvöfalt áskriftargjald á mánuði miðað við afnotagjald RÚV og virðist ekki hafa mikið fé umleikis til metnaðarfullrar innlendrar dagskrárgerðar í neinum mæli og beinu útsendingarnar á Skjá einum eru náttúrlega ekki dagskrárgerð. Í ávarpi sínu þegar sjónvarpið flutti í nýtt húsnæði í útvarpshúsinu í Efstaleiti bað hæstv. ráðherra menn um að skoða með opnum huga hvort ekki væri eðlilegt að stofna til samstarfs við einkaaðila um nýtingu annarrar sjónvarpsrásar RÚV að því er virtist til að kostnaðurinn af rásinni þyrfti ekki að leggjast allur á herðar RÚV. Þannig væri meira fé aflögu til að bæta það dagskrárefni sem er þegar sent út á einni rás. Herra forseti. Sumir mundu kalla þetta hundalógík.

Vilji hæstv. menntmrh. til að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins er ljós. En hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér nánustu framtíð í þeim efnum? Hefur verið gert samkomulag milli stjórnarflokkanna um rekstrarformið eða varðandi annað er lýtur að pólitískri stefnumótun fyrir stofnunina? Eru hafnar viðræður við einkaaðila um samnýtingu rekstrarþátta stofnunarinnar? Boðað hefur verið nýtt frv. til laga um Ríkisútvarp á yfirstandandi þingi. Er það á leiðinni?

Fyrir skömmu var staddur hér á landi Bob Collins, útvarpsstjóri írska ríkisútvarpsins og formaður sjónvarpsnefndar Evrópusambandsins, ljósvakamiðla í ríkiseigu. Hann flutti ávarp við sama tækifæri og hæstv. ráðherra þegar sjónvarpið flutti í ný húsakynni í Efstaleitinu og hann fór í erindi sínu yfir tilvistarrök fjölmiðla í almannaeigu eins og hann kýs að skilgreina ríkisútvarp. Í máli hans kom fram að hlutverk slíkra miðla sé að framleiða og miðla gæðaefni og standa að vönduðum fréttaflutningi sem hafi hagsmuni almennings að leiðarljósi en hvorki hagsmuni pólitískra samtaka né fjárhagslega hagsmuni eigenda sinna. Undir þetta sjónarmið vil ég taka. Mig langar, herra forseti, til að gera orð Bob Collins að lokaorðum mínum er hann sagði í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins í september, með leyfi forseta:

,,Það er mikilvægt hverju samfélagi að eiga aðgang að vandaðri fréttaþjónustu og dagskrárgerð sem er ekki bundin af öðru en hagsmunum almennings.``

Þannig stofnun á Ríkisútvarpið að vera, herra forseti. Þannig stofnun hefur meiri hluti starfsmanna Ríkisútvarpsins viljað starfa hjá en því miður verður ekki annað séð en hæstv. menntmrh. sé á öðru máli.