Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:45:59 (400)

2000-10-11 15:45:59# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur margt verið gert til þess að efla Ríkisútvarpið og m.a. hefur verið unnið markvisst að því að búa því betri umgjörð starfslega með því að flytja alla starfsemina á einn stað eins og gert var í ágúst sl. Með því hafa skapast ný tækifæri eins og menn geta kynnt sér þegar þeir lesa, ef þeir gefa sér tíma til þess, rökstuðning Ríkisútvarpsins fyrir því á sínum tíma að flytja alla starfsemina á einn stað. Í því átti að felast verulega og mikil hagræðing þegar til lengri tíma væri litið. Þetta skref hefur verið stigið og Ríkisútvarpið starfar nú á einum stað.

Þegar litið er til þess að menn ræði um tekjuöflun Ríkisútvarpsins þá hefur Ríkisútvarpið tvær tekjuöflunarleiðir, þ.e. annars vegar afnotagjöldin og hins vegar auglýsingatekjurnar. Afnotagjöldin eru þannig ákveðin að bera þarf þau undir ráðherra og ríkisstjórn og þar með einnig Alþingi, því ekki eru teknar ákvarðanir um hluti af þessu tagi nema með vitund Alþingis. Það var ákveðið af Alþingi á sínum tíma að þessi háttur skyldi hafður á varðandi afnotagjöldin. Ekki var það tillaga á þeim tíma að þetta yrði svona, heldur yrði það í höndum Ríkisútvarpsins sjálfs að ákveða afnotagjöld sín, en þessi háttur var hafður á og ég er sannfærður um að það hefur m.a. staðið í vegi fyrir því að afnotagjöldin hafi hækkað eins og ég skildi orð hv. þm. að hann vildi að þau gerðu því menn hafa þar tekið tillit til verðlagsþróunar og meginmarkmiða í efnahagsstjórn landsins þegar málið kemur á vettvang ríkisstjórnarinnar.

Einnig var afnumið að hafa tengingu á milli afnotagjalda og hækkunar á vísitölu. Þetta er því sjálfstæð ákvörðun sem þarf að taka af stjórnvöldum og þau hafa frekar legið undir gagnrýni fyrir það á undanförnum mánuðum að verðþenslan væri of mikil í landinu heldur en hitt, þannig að þessi leið er mjög þröng þegar kemur að því hjá stjórnvöldum að taka ákvarðanir af þessu tagi.

Ég hef hins vegar sagt að þrjár leiðir séu sem ríkið getur farið til að standa að fjárveitingu til Ríkisútvarpsins. Það er í fyrsta lagi að hafa þetta afnotagjaldakerfi áfram. Í öðru lagi að leggja á sérstakan nefskatt fyrir Ríkisútvarpið. Og í þriðja lagi að það fái fjárveitingar sínar af fjárlögum og tekjur þess verði þá að þessu leyti innheimtar í almennu skattkerfi ríkisins.

Ég hallast einna helst að síðustu leiðinni og hef látið skoða það mál sérstaklega fyrir mig og tel að unnt sé að gera það og það brjóti ekki í bága við þátttöku okkar t.d. í því samstarfi sem fer fram á vegum Evrópusamtakanna innan Evrópska efnahagssvæðisins og það samrýmist einnig þeim útvarpslögum sem Alþingi samþykkti sl. ár.

Ég var þeirrar skoðunar að skynsamlegt væri að fara þá leið að samþykkja fyrst þann ramma sem útvarpslögin mæla fyrir um og síðan að huga að málefnum Ríkisútvarpsins og raunar var menntmn. Alþingis sama sinnis eins og fram kemur í áliti hennar.

Það frv. sem ég hef hugað að varðandi Ríkisútvarpið liggur í sjálfu sér fyrir í drögum á mínum vegum og viðræður hafa farið fram á milli mín og formanns Framsfl. um næstu skref í málinu. Við erum að ræða þau mál, og það hefur ekki komið neitt fram í samtölum okkar sem segir mér að ekki náist samkomulag á milli stjórnarflokkanna í þessu máli. Það er formanns Framsfl. að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum að þessu leyti en ekki mitt hlutverk, en ég lít ekki þannig á að neinn ágreiningur sé á milli okkar í þessu máli og þær viðræður munu halda áfram og ég tel víst að við komumst að sameiginlegri niðurstöðu.

Útvarpsstjóri hefur nýlega sent mér bréf, dags. 4. október, þar sem hann fer þess á leit að ég flytji frv. til laga um breytingu á útvarpslögunum um að ákvæðið um framkvæmdasjóð útvarpsins verði lagt niður. Ég hef fullan hug á að gera það og tel að það sé brýnt eins og kom fram í máli hv. þm., að núna þegar þessum framkvæmdum er lokið og mál standa með þeim hætti sem er, þá verði þetta sérstaka ákvæði um framkvæmdasjóðinn lagt til hliðar og það fellt úr lögum. Ef samstaða er um að taka það sérstaklega fyrir hér á þinginu, þá væri það mjög æskilegt að mínu mati.

Varðandi dreifikerfið, þá gerðum við samning, árangursstjórnunarsamning við Ríkisútvarpið um áramótin. Þar er gert ráð fyrir að styrkja dreifikerfið og bæta móttökuskilyrði þannig að bilunum fækki og sendistyrkur og öryggi dreifingar verði meira á viðkvæmum svæðum, og RÚV geri áætlun um nýtingu gervitungla til að fytja útvarps- og sjónvarpsefni. Ég tel að líta verði til gervitunglanna ef við ætlum að ná til landsins alls með því öryggi sem við krefjumst og þess vegna er það mikilvægur þáttur í samkomulagi okkar að RÚV nýti sér þá tækni.