Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 16:04:53 (407)

2000-10-11 16:04:53# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef áður sagt það úr þessum ræðustóli og ætla að endurtaka það hér að Sjálfstfl. leggur Ríkisútvarpið í einelti og það sannast æ frekar. Nú er stofnuninni árum saman haldið í fjársvelti sem hefur hrakið Ríkisútvarpið út í kostun á efni langt út yfir eðlileg takmörk. Flokkspólitískar mannaráðningar hafa verið þvílík regla af hálfu Sjálfstfl. í þessari stofnun að það þykja stórtíðindi ef þangað ratar inn maður sem ekki hefur flokksskírteini í Sjálfstfl. upp á vasann.

Nú heyrist meira að segja hvíslað á göngum að til standi að taka af sjónvarpinu aðra sjónvarpsrásina í stað þess að standa við bakið á Ríkisútvarpinu um þá sjálfsögðu framþróun starfseminnar að sjónvarpið fari að senda út á tveimur rásum, t.d. léttara efni og íþróttaefni á annarri rásinni. Þetta ber öll merki hins sama, herra forseti. Sjálfstfl. virðist vinna markvisst að því að veikja Ríkisútvarpið sem stofnun, bæði utan frá með fjármagnssvelti og öðru slíku en líka innan frá, af augljósum ástæðum og í augljósum tilgangi. Þá verður stofnunin auðveldara fórnarlamb í þeirri einkavæðingu sem lengi hefur verið draumur Sjálfstfl. og alveg sérstaklega ungra sjálfstæðismanna sem hafa það fyrir trúarbrögð að búta eigi stofnunina niður og selja hana og einkavæða.

Fróðlegt var að heyra talsmann Sjálfstfl. lýsa því yfir áðan að það þyrfti að losna við útvarpsráð, það væri stofnuninni til trafala, en það átti auðvitað að lesast: Sjálfstfl. til trafala. Auðvitað vill Sjálfstfl. losna við útvarpsráð líka þannig að hann ráði þessu bara algjörlega einn. Það væri kannski varatillaga að hæstv. menntmrh. skipaði sjálfur í útvarpsráð, t.d. níu sjálfstæðismenn. Þessi herleiðing Ríkisútvarpsins, herra forseti, er óræk sönnun þess hversu brýnt það er orðið að losna við Sjálfstfl. út úr Stjórnarráðinu og sérstaklega hæstv. menntmrh. út úr þeim húsakynnum.