Ummæli iðnaðarráðherra í fyrirspurnatíma

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 10:42:33 (417)

2000-10-12 10:42:33# 126. lþ. 9.91 fundur 48#B ummæli iðnaðarráðherra í fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvað hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lítur stórt á sig. Hann fer upp í umræðum um störf þingsins vegna þess að hæstv. ráðherra vék að honum í þingræðu í gær og ber því við að það gefi tilefni til þess vegna þess að hann hafi ekki haft tækifæri til að svara fyrir sig. Þingmaðurinn er manna harðastur í því að vega að öðrum þegar honum þykir svo við horfa. Ég vil vekja athygli á því að síðast í umræðum um stefnuræðu forsrh. vék þingmaðurinn að öðrum þingmönnum og nafngreindi mig sérstaklega og vissi þó að ég hafði engin tök á að grípa til andsvara á þeim tíma. Það tilefni sem þingmaðurinn ber fram fyrir þeirri afsökun að taka málið hér upp núna undir þessum lið er því algerlega tilefnislaus og rakalaus auk þess sem hv. þm. fer svo aftur með ósannindi eins og kom fram hjá honum áðan þegar hann sagði að eftir sjálfum sér, því að honum líkar best að vitna í sjálfan sig, væri almenningsálitið farið að snúast gegn því að flytja ríkisstofnanir út á land. Nýlega kom út skoðanakönnun þar sem annað var staðfest, um tveir þriðju hlutar þeirra sem svöruðu henni lýstu yfir fullum stuðningi við það markmið og ekki hefur þeim mislíkað meir framkvæmdin en það.