Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:24:07 (426)

2000-10-12 11:24:07# 126. lþ. 9.2 fundur 23. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., SvH
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:24]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég mun ekki auka mjög efnislega við þessar umræður, aðeins drepa á það sem fram kom hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur áðan, að í tillögum auðlindanefndar væri gert ráð fyrir að fella í stjórnarskrá ákvæði um varanlegan eignarrétt þjóðarinnar á sameiginlegum auðlindum. Auðvitað er það góðra gjalda vert. En má ég minna á að í lögum höfum við haft skýr ákvæði um að sjávarauðlindin væri sameiginleg eign allrar þjóðarinnar. Og hvernig hefur til tekist? Hef ég ekki verið undanfarna daga að lesa lærðar greinar eftir hv. þm. um hvernig hinir nýju auðvaldsherrar skáka fé sínu skattfrjálsu til útlanda? Hef ég ekki þóst sjá það líka að hv. þm. ætlar að það fé sé runnið frá sjálfri sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni, vegna sölu manna á aflaheimildum sínum á því okurverði sem við þekkjum? Allt er þetta hárétt. Við sjáum þess vegna að við getum ekki treyst því, a.m.k. eftir tillögum auðlindanefndar, að þessi ákvæði komi að neinu nýju gagni. Hv. þm. tók það sérstaklega fram að öryggi yrði að ráða í þessum efnum. Þá á hv. þm. sjálfsagt við að sægreifarnir geti gengið að þessum notarétti sínum af fullkominni vissu og öryggi. Auðvitað er rekstraröryggi mjög mikilvægt í sjávarútvegi eins og öðrum greinum. En hér er til þess gildrað með allri þessari uppsetningu hv. auðlindanefndar að áfram sæki í sama horfið um nýtingarrétt örfárra útvalinna að þessari auðlind og fjármunir muni þess vegna renna í eigin vasa þeirra.

Herra forseti. Aðalerindi mitt er að krefjast þess að þessari umræðu um öll mál sem snúa að hæstv. sjútvrh. og formönnum sjútvn. verði frestað. Þetta er með öllu ótækt. Að vísu er formaður sjútvn. horfinn af þingi. En hann á varaformann og það er hvorki meira né minna en hv. 3. þm. Vestf. sem ber byggðamálin öll sem mest fyrir brjósti. Þetta er með öllu ótækt. Nú þegar umræður um þessi mál standa svo hátt í stönginni sem raun ber vitni verður við þetta forakt forustumannanna á hinu háa Alþingi ekki unað.

Herra forseti. Ég vænti þess að hann sjái sér fært að verða við þessari eðlilegu og eindregnu kröfu.