Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:30:16 (430)

2000-10-12 11:30:16# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:30]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um þátttöku Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Meðflm. mínir að þessari tillögu eru hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Gísli S. Einarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Jóhann Ársælsson. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að Ísland verði aftur aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Mótmæli Alþingis við hvalveiðibanni yrðu hluti þeirra ráðstafana.``

Herra forseti. Ég hef lagt mál samhljóða þessu fram hér á Alþingi í tvígang. Í fyrra skiptið komst málið til umræðu en umræðu hér í þingsal var aldrei lokið. Seinna skiptið komst málið aldrei á dagskrá en þá var það lagt fram vegna þess að til umfjöllunar hér á hv. Alþingi var tillaga þess efnis að Íslendingar hæfu hvalveiðar. Mér þótti það eðlilegt, herra forseti, ekki síst með tilliti til þess að nefnd sem starfaði undir forsæti hv. þm. Árna Ragnars Árnasonar hafði skömmu áður skilað af sér áliti og mælt með því --- sem einum lið í athugun á því hvort Ísland tæki aftur upp hvalveiðar --- að þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu yrði endurskoðuð, það yrði kannað með hana. En það virtist ekki vera á dagskrá miðað við þá tillögu sem þá var flutt hér og síðar samþykkt og ég kem e.t.v. síðar að.

Herra forseti. Ísland gerðist aðili að alþjóðasáttmálanum um skipan hvalveiða árið 1948 en sagði aðildinni upp, sem jafngilti úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, árið 1991 á þeim forsendum að ráðið starfaði ekki í samræmi við sáttmálann.

Árið 1982 samþykkti Alþjóðahvalveiðiráðið tímabundna stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni. Skyldi sú stöðvun taka gildi frá ársbyrjun 1986. Það bann átti síðan að endurskoða í ljósi þess mats sem þá lægi fyrir á ástandi hvalastofna árið 1990. Vísindaveiðar Íslendinga voru framlag okkar til þess að slíkt mat gæti orðið sem áreiðanlegast og lauk þeim árið 1989. Síðan þá hefur ekki verið veiddur hvalur við Ísland því að þrátt fyrir að vísindanefnd ráðsins samþykkti á grundvelli rannsóknanna að tilteknir hvalastofnar þyldu takmarkaðar veiðar ákvað meiri hluti ráðsins að endurskoða ekki veiðibannið. Alþingi samþykkti með naumum meiri hluta árið 1983 að nýta ekki rétt landsins til að gera fyrirvara við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni. Það er þess vegna, herra forseti, sem síðari hluti tillögugreinarinnar segir að mótmæli Alþingis við hvalveiðibanni yrðu að vera hluti þeirra ráðstafana sem gera þyrfti ef við yrðum aftur aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Við yrðum sem sé að taka til baka samþykkt okkar frá árinu 1983 þar sem við ákváðum að nýta ekki rétt okkar til að gera fyrirvara við samþykkt um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni.

Nú veit enginn hvort hægt er að ganga í alþjóðasamtök með fyrirvara um tiltekin atriði. Það mundi væntanlega ráðast af vilja þeirra sem fyrir eru í ráðinu til að fá Ísland aftur inn í ráðið til að horfa í gegnum fingur sér varðandi fyrri ákvarðanir okkar hvort slíkt yrði samþykkt.

Herra forseti. Þótt Ísland hafi sagt sig úr ráðinu á þeim forsendum að vera þess í ráðinu kæmi í veg fyrir sjálfbæra nýtingu hvalastofna og þrátt fyrir tilraun til að skapa möguleika á að hefja að nýju hvalveiðar í samtökum með Norðmönnum, Grænlendingum og Færeyingum, NAMMCO, hafa hvalveiðar ekki hafist enn. Íslenskir vísindamenn telja þó að hvalastofnar við Ísland séu í vexti, enginn þeirra sé í útrýmingarhættu og einhverjir þoli í raun sambærilegar veiðar og voru stundaðar fram að gildistöku hvalveiðibannsins. Vísindanefnd NAMMCO hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu að óhætt væri á forsendum vísindanna að hefja takmarkaðar hvalveiðar.

Í grg. með þáltill. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar frá 1994 um hvalveiðar kom fram að ef Íslendingar hæfu aftur hvalveiðar tækju eftirlitsreglur óhjákvæmilega mið af umfjöllun hvalveiðiráðsins og þeim ákvörðunum sem þar væru teknar. Í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og einnig í framkvæmdaáætlun Ríó-ráðstefnunnar er mælt fyrir um skyldu ríkja til samstarfs í þessum efnum og 65. gr. hafréttarsamningsins fjallar sérstaklega um þessar skyldur hvað varðar sjávarspendýr. Þar segir að ríki ,,skuli starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skuli hvað hvali snertir einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim``.

Þegar Ísland sagði sig úr ráðinu á sínum tíma var álitið að fleiri ríki fylgdu því fordæmi. Það gerðist ekki. Noregur sem er eina fullvalda ríkið ásamt okkur í NAMMCO hefur haldið áfram að starfa innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og stundar hrefnuveiðar í skjóli þess. Ekki eru líkur á að Norðmenn yfirgefi Alþjóðahvalveiðiráðið, enda virðast þeir telja að staða þeirra væri mun verri utan ráðsins. Þeir hafa m.a. bent á það sem merki um viðhorfsbreytingar í ráðinu að þeir skuli komast upp með að hefja hvalveiðar að nýju. Sé litið til stöðu Norðmanna, herra forseti, virðist einsýnt að hagsmunum okkar væri betur borgið með því að vera einnig í ráðinu. Japanir stunda einnig veiðar í vísindaskyni. Þær veiðar fara fram þrátt fyrir veru þeirra í Alþjóðahvalveiðiráðinu og eru löglegar samkvæmt sáttmálanum rétt eins og vísindaveiðar okkar á sínum tíma.

Ráðgjafi Hvalveiðisamtaka Japans sagði í viðtali við Morgunblaðið nú í vor að Japanir hefðu á sínum tíma velt því fyrir sér að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu á sömu forsendum og Íslendingar gerðu. Íslendingar áttu mikla samúð og stuðning Japana þegar þeir gengu úr ráðinu. Þeir áttu von á því, eins og fram kemur í viðtalinu, að Íslendingar mundu hefja hvalveiðar utan ráðsins en það hefur ekki gerst. Og ráðgjafinn heldur áfram:

,,Ég veit ekki af hverju, en þrýstingur frá öðrum löndum á þar ugglaust hlut að máli. Í raun hafa Íslendingar með fordæmi sínu sýnt hvað mundi gerast ef við gengjum út og að betra væri að vera áfram í ráðinu og reyna að stuðla að breytingum innan frá. Við söknum hins vegar sárt framlags Íslands í hvalveiðiráðinu, sérstaklega á vísindasviðinu.``

Ráðgjafi Hvalveiðisamtaka Japans kvaðst telja að Íslendingar ættu í ljósi reynslu sinnar að íhuga að ganga aftur í hvalveiðiráðið.

Herra forseti. Ekki er nóg að veiða, það þarf líka að selja, en allt er óljóst um sölu hvalaafurða. Það hefur komið fram hér á hv. Alþingi í máli sjávarútvegsráðherra þegar málið hefur verið til umfjöllunar að ekki sé kostur á að flytja hvalaafurðir úr landi og lengi hefði legið fyrir að við gætum ekki selt Japönum hvalaafurðir þó að við hæfum veiðar á meðan við stæðum utan ráðsins. Samþykkt ráðsins frá áttunda áratugnum bannar að lönd innan ráðsins kaupi hvalaafurðir af ríkjum utan þess. Einnig hafa verið gerðar samþykktir sem lúta að verslun með skotfæri til hvalveiða.

Staðan er því sú, herra forseti, að þrátt fyrir að við stöndum nú utan ráðsins og séum þar með ekki formlega bundin af ákvörðunum þess um veiðibann, þrátt fyrir að vísindamenn, bæði á Hafrannsóknastofnun og á vegum NAMMCO, telji að líffræðilegar forsendur séu ákjósanlegar varðandi veiðar og sjálfbæra nýtingu hvalastofnanna og þess vegna hægt að hrinda stefnu Íslands í framkvæmd, þrátt fyrir skýrslur á skýrslur ofan með fyrirheitum um hvalveiðar, ef ekki í ár þá á næsta ári, og þrátt fyrir umræður og heitingar á Alþingi og þrátt fyrir ályktun Alþingis frá mars 1999 þar sem segir að ,,hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land``, en sú tillaga gerði upphaflega ráð fyrir því að hvalveiðar yrðu hafnar árið 1999, þá veiðum við ekki hval. Að minnsta kosti ekki viljandi. Augljóst er því að þrátt fyrir meinta ástæðu úrsagnar okkar úr Alþjóðahvalveiðiráðinu þá ræður pólitísk afstaða ráðsins einnig ákvörðunum og gerðum okkar utan ráðsins. Annað er ekki hægt að álykta af aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í öll þessi ár.

Rökin fyrir því að standa utan ráðsins eru harla léttvæg í ljósi þess að við allar ákvarðanir verður að taka tillit til stefnumótunar ráðsins, hversu óvísindaleg sem hún kann að vera. Hvort sem við stöndum utan ráðsins eða innan virðumst við bundin af ákvörðunum þess. Möguleikar til að hafa áhrif á stefnu þess eru mestir ef við eigum þar sæti því að ráðið er og verður um fyrirsjáanlega framtíð helsti vettvangur umræðu um hvalveiðar, og baráttu fyrir því að hvalveiðar verði hafnar á ný. Þar sitja enn fulltrúar helstu hvalveiðiþjóðanna og einnig þeirra þjóða sem hafna hvalveiðum í atvinnuskyni og þar er baráttan háð um þessi mál.

Alþingi samþykkti með naumum meiri hluta, eins og ég gat um áðan, að nýta ekki rétt landsins til að gera fyrirvara við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það er auðvitað atriði sem þarf að skoða. Við þurfum að íhuga og reyna að komast að því hvernig við nálgumst Alþjóðahvalveiðiráðið aftur, þá með þeim réttindum sem við viljum hafa þar, m.a réttinum til veiða. Það er ástæða til þess, herra forseti, nú þegar fyrir liggur ályktun Alþingis um að hefja hvalveiðar að nýju, að við skoðum þennan möguleika. Það væri afar hæpið að mínu mati og okkar flm. að Íslendingar hæfu hvalveiðar að nýju utan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Við erum ekki í góðri aðstöðu til að hefja hvalveiðar en lakari er hún ef við stöndum utan ráðsins.

Á síðustu árum hefur ýmislegt gerst sem gerir það að verkum að við þurfum að kanna ýmislegt varðandi hvalveiðar. Það tengist m.a. því hvernig við erum farin að nýta hvalastofnana á nýjan hátt. Ótrúlegur fjöldi ferðamanna kemur til Íslands til þess að stunda hvalaskoðun. Bráðabirgðatölur hvalaskoðunarfyrirtækjanna segja okkur að í ár hafi þeim sem koma til hvalaskoðunar fjölgað um 20% og þeir hafi verið á bilinu 42--43 þúsund í ár. Auðvitað verða menn að velta þessum hlutum fyrir sér líka og skoða það sem hér hefur verið rætt, hvort hvalaskoðun og hvalveiðar geti farið saman. Við vitum að hjá Norðmönnum fer þetta ekki saman, þeir sýna ekki og veiða sömu hvalategundir. Þeir sýna eina tegundina og veiða aðra. Við þurfum að skoða þetta hjá okkur sem lið í því að undirbúa hvalveiðar okkar.

Herra forseti. Ég hef lagt fram tvær fyrirspurnir til hæstv. sjútvrh. varðandi það undirbúningsstarf sem honum var falið að inna af hendi. Ég ætla ekki að fjölyrða um það frekar við þessa umræðu nema sérstakt tilefni gefist til. En Alþingi þarf að gera þessi mál upp við sig og taka ákvörðun um hvernig það ætlar að standa að hvalveiðum ef til þeirra kemur samkvæmt þeirri ályktun sem þegar hefur verið samþykkt og liður í því er að Alþingi geri upp við sig stöðuna gagnvart Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. utanrmn., en legg jafnframt til að hv. sjútvn. fái málið til umsagnar.