Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:49:30 (433)

2000-10-12 11:49:30# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., Forseti GÁS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Forseti (Guðmundur Árni Stefánsson):

Forseti vill geta þess í tilefni þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað um fundarstjórn forseta að þingmönnum ber að mæta til fundar og þar með þeim hæstv. ráðherrum sem sitja hverju sinni. Nú er það svo að ýmsir þeir þingmenn sem hér voru nefndir til sögu hafa kallað inn varamenn. Sumir þeirra hafa lögmætar fjarvistir, aðrir ekki. Forseti gerði það að ósk flutningsmanna um fyrri dagskrármál á þessum fundi að taka þau út af dagskrá eða fresta frekari umræðu vegna óska þar um og fjarveru viðkomandi ráðherra.

Forseti vill hafa það alveg skýrt hvort slíkar óskir séu uppi af hálfu frsm. þeirra mála sem hér eru á dagskrá. Það er alkunna að við gerð dagskrár í þinginu er reynt að koma til móts við óskir flutningsmanna og frsm. þess efnis að ráðherrar viðkomandi málaflokks verði viðstaddir. Það er hins vegar oft happadrjúgt að gera það fyrir fram.

Forseti mun vegna óska þar um gera ráðstafanir til að kanna hvort hæstv. utanrrh. geti verið viðstaddur umræðu um 6. dagskrárliðinn, en ljóst er að af þátttöku hæstv. sjútvrh. verður ekki í dag eins og margoft hefur komið fram.