Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 12:33:01 (449)

2000-10-12 12:33:01# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[12:33]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Tilefni þess að ég kem hérna í ræðustól eru þau orð hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar að hvalaskoðunin og hvalveiðarnar geti farið vel saman og fari vel saman í Noregi. Menn hafa nú ansi oft sagt hér í ræðum: ég held og tel afar líklegt.

Ég tek það fram að ég hef engin vísindaleg rök máli mínu til stuðnings. Hins vegar heyri ég hvalaskoðunarmenn á Norðurlandi segja þær sögur að sé hrefna drepin í Eyjafirði, sem gerist, þá hafi það áhrif á hvalaskoðunina næstu daga á eftir. Það lýsir sér í því að hrefnur láta ekki sjá sig í nálægum fjörðum, Eyjafirði eða Skjálfanda. Ég hef heyrt sömu sögur frá Noregi og heyrt ferðaþjónustumenn þar vara við hvalveiðunum á þeim slóðum sem hvalaskoðun fer fram.

Ég fullyrði, herra forseti, að af þeim 44 þús. sem hafa farið í hvalaskoðun á landinu það sem af er þessu ári þá hafa eflaust allir notið þess að sjá hval. Það er með ólíkindum hversu oft og víða sést til hvala í þessum ferðum. Það er mjög mögnuð stund að vera í fullum bát af fólki sem aldrei hefur séð hval í þessari villtu náttúru. Fögnuðurinn og tilfinningin er slík að það er gjörsamlega með ólíkindum. Ég vil benda á að hvalaskoðunin er orðin okkur svo dýrmæt tekjulind að þegar allt er talið má ætla að hún skili þjóðarbúinu á þessu ári yfir 600 milljónum í beinar tekjur. Ef afleiddar tekjur er teknar þar inn þá er það um einn milljarður. Herra forseti. Mér er til efs að hvalveiðar á þessum tímum í gildandi hvalveiðibanni gætu skilað okkur öðru eins.