Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 13:06:09 (455)

2000-10-12 13:06:09# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[13:06]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þar sem við erum nú að tala um breytingar á lögunum um fjárfestingar erlendra aðila, þá sýnist mér að við hljótum að halda okkur við þá skilgreiningu sem fram kemur í þeim lögum vegna þess að miðað er við hana þegar verið er að taka afstöðu til þess hver er útlendingur og hver er Íslendingur þegar kemur að fjárfestingum. Það kann að vera að sú skilgreining sem er í gildandi lögum sé hv. þm. ekki að skapi og vera kann að þar sé ekki gætt þeirra sjónarmiða sem hann telur eðlilegt að gætt sé. Vissulega er þessi umræða áhugaverð, ekki síst í ljósi þess að samfélag okkar er að verða býsna fjölþjóðlegt ef má orða það þannig. Hins vegar er í gildandi lögum farið yfir það við hvað er átt með íslenskum aðila og ég treysti mér ekki til þess að tala um það öðruvísi en segir í löggjöfinni, enda er verið breyta löggjöfinni á grundvelli þess sem þar er fyrir.