Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 13:37:12 (459)

2000-10-12 13:37:12# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[13:37]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi láta það koma fram að ég met það og mér finnst það lofsvert að hæstv. viðsk.- og iðnrh. skuli mæta á Alþingi þegar um er að ræða umfangsmikið mál sem heyrir undir hana, þannig að þingmenn sem taka til máls, svo ekki sé nú talað um flutningsmenn málsins, geti átt orðastað við hana. Þetta finnst mér sýna Alþingi Íslendinga virðingu af hálfu ráðherrans, virðingu fyrir þeim störfum sem verið er að vinna og mættu fleiri taka sér þessa starfshætti ráðherrans til fyrirmyndar. Ég vil láta það koma fram sérstaklega nú vegna gagnrýni minnar áður fyrr að auðvitað eiga samskipti löggjafans og framkvæmdarvaldsins að vera með þeim hætti sem hér á sér stað.

Hæstv. ráðherra sagði réttilega að í gildandi lögum um erlendar fjárfestingar í atvinnurekstri á Íslandi megi lesa það út úr textanum, sem er heldur neikvæður, að litið væri á erlenda fjárfesta sem hálfgildings óvini. Þetta er ekki gamall lagatexti, hann er frá 1991, og má til sanns vegar færa að sá var andinn í íslensku samfélagi á þeim tíma. Kannski var ekki litið á erlenda fjárfesta beinlínis sem óvini en margir litu á þá sem hættulega fyrir íslenskt þjóðerni og íslenskt atvinnulíf. Þessi lög voru sett í aðdraganda þess að Ísland gerðist aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði og þá voru uppi mjög sterkar raddir meðal þjóðarinnar um það að ef múrarnir í kringum Ísland væru brotnir niður eða boraðir á þá göt þá væru einhverjir fokríkir ,,jóakimar frændur`` sem stæðu fyrir utan þá múra, og biðu eftir því einu að brjótast inn á hinn íslenska markað og leggja undir sig ekki bara fólk og fyrirtæki, heldur jafnvel landið sjálft. Menn stóðu í þessari trú og héðan úr þessum ræðustól voru fluttar margar og hástemmdar ræður um hið sérstæða land, hina sérstæðu þjóð og hinar sérstæðu aðstæður sem mætti alls ekki láta útlendinga komast í snertingu við.

Þetta var það viðhorf sem var þá mjög ríkjandi í umræðu á Íslandi, í fyrsta lagi hræðslan við það ókunna, í öðru lagi hin gífurlega minnimáttarkennd sem oftar en ekki brýst fram í andhverfu sinni, þjóðrembunni, þ.e. á bak við þjóðrembingsháttinn felst oftar en ekki minnimáttarkennd eða það viðhorf að Íslendingar geti ekki spjarað sig í samskiptum við aðra nema um þá gildi sérstök lög og sérstakar reglur sem vernduðu þá og verðu fyrir slíkum samskiptum og alls ekki mætti hleypa útlendum aðilum í gagnkvæm réttindi í samningum við Íslendinga. Fólk var því hrætt við að ekki aðeins mundu þessir jóakimar frændur sem biðu í röðum fyrir utan hina íslensku múra, leggja undir sig allt það íslenskt atvinnulíf sem töggur væri í, heldur var því haldið fram héðan úr þessum ræðustól að fátækt fólk í útlöndum, aðallega fólk frá suðurhluta Evrópu, mundi fjölmenna hingað til lands ef opnuð yrðu fyrir því hlið á múrnum og setjast upp á framfærslu hins félagslega kerfis og að mjög skammt yrði til þeirrar stundar líka að útlendir fjárfestar, ef þeim yrði hleypt hingað inn, mundu leggja undir sig alla fallegustu staði á Íslandi, kaupa þá upp til einkanota fyrir sig. Ég man eftir því að einn af mætari stjórnmálamönnum þess tíma nefndi þar sérstaklega dæmi um Laxárdalinn, að ekki mundi nú líða langur tími áður en Laxárdalurinn yrði alfarið í eign útlendinga. Þau lög sem sett voru árið 1991 voru sett í þessu umhverfi.

Ég verð að segja og viðurkenna það að við, sumir hverjir, sem gengum til þess verks gerðum það gegn betri vitund. En þetta var einfaldlega það gjald sem menn urðu að inna af höndum til að hægt væri á þeim tíma að fá Íslendinga til að ganga til þess samstarfs sem hefur verið okkur notadrýgst, ekki bara í efnahagsmálum heldur ekki síður í félagsmálum, á síðustu 10 árum og fært íslenskum neytendum, almenningi og verkafólki, réttindi sem hafði tekið íslenska neytenda- og verkalýðshreyfingu áratugi að berjast fyrir án þess að ná nokkrum árangri.

Til allrar guðslukku hefur þessi reynsla kennt allflestum Íslendingum, en þó ekki öllum, að útlendingar eru ekki óvinir, menn þurfa ekkert að vera hræddir við þá. Við Íslendingar getum haldið til jafns við aðra í eðlilegu samkeppnisumhverfi og við þurfum ekki að óttast það þó hingað til lands komi fólk, hvort heldur er verkafólk til þess að vinna hörðum höndum eða fjármagnseigendur til þess að aðstoða við uppbyggingu á íslensku atvinnu- og efnahagslífi.

Hvarvetna í heiminum er erlend fjárfesting talin vera eftirsóknarverð. Þjóðir heims eru allar í kapphlaupi eftir að fá erlendar fjárfestingar til uppbyggingar. Þau ríki í Evrópu sem eiga við alvarleg efnahagsvandamál að stríða í kjölfar pólitískra viðburða þar í landi, eins og Júgóslavía, eiga sér engan draum heitari en þann að fá erlenda fjárfesta til liðs við sig til að byggja upp atvinnu- og efnahagslíf viðkomandi landa.

Ríki sem eiga í erfiðleikum, t.d. vegna viðskiptahindrana, eiga sér enga ósk heitari en þá að fá aðstoð erlendra fjárfesta við að byggja upp atvinnu- og félagslíf í viðkomandi landi. Það er auðkenni á uppbyggingu þeirra ríkja og ríkjahluta, t.d. hér í Vestur-Evrópu, sem best hefur gengið og mestum framförum hafa sætt á undanförnum árum, að það hefur orðið vegna þess að þeim tókst öðrum fremur að laða til sín erlenda fjárfesta. Vil ég þá nefna ríki eins og Írland og ríkjahluta eins og Wales og Skotland, þar sem ekki nokkur vafi er á því að áliti íbúanna sjálfra, ekki bara að mati þeirra erlendu aðila sem eiga um að fjalla heldur að mati íbúanna sjálfra, að árangurinn að velgengninni ber fyrst og fremst að skýra með því að það tókst að fá erlenda fjárfesta til uppbyggingar við atvinnulíf í þessum löndum sem stóðu öðrum Evrópulöndum langt að baki fyrir tíu árum.

[13:45]

Raunar er uppbyggingin bæði á Írlandi og í Wales hreint kraftavek og það kraftaverk varð fyrir tilstilli þess að erlendir fjárfestar fengust til þess að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífsins í þeim ríkjum.

Þegar þjóðremban íslenska gerir sér ljóst að undirrót hennar er vanmetakennd og engin ástæða er fyrir Íslendinga að fyllast vanmetakennd í samskiptum við aðrar þjóðir þá er mjög eðlilegt að menn hugi að því að afnema þær hindranir sem komið hafa og koma munu í veg fyrir að tilteknar atvinnugreinar á Íslandi geti notið jafnréttis á við aðrar, ekki síst þegar menn huga að því að það er tiltölulega lítill vandi ef erlendir aðilar væru fyrst og fremst að hugsa um að ná yfirráðum yfir fyrirtækjunum fremur en njóta hagnaðar af rekstri þeirra, sem er auðvitað fyrst og síðast ástæða þess að þeir verja fé sínu í áhætturekstur --- þeir eru að leita eftir hagnaði, hagnaðarvon, en ekki endilega stjórnunarvöldum --- átta sig á því að margar leiðir eru til þess umfram þá leið, þ.e. ef sú leið yrði lokuð öllu heldur að fjárfesta í íslenskum atvinnurekstri þá eru fjölmargar leiðir til þess aðrar, t.d. með lánveitingum sem eru gjörsamlega óhindraðar af hálfu okkar Íslendinga. Enginn hindrar það að íslenskt atvinnufyrirtæki geri samkomulag við erlendan fjármagnseiganda eða erlent atvinnufyrirtæki um að erlendi aðilinn veiti hinum íslenska aðila stórlán gegn því að t.d. hinn erlendi aðili fái einkarétt til þess að njóta afurðanna sem hið íslenska fyrirtæki framleiðir. Ekkert bannar þetta. Ekkert kemur í veg fyrir það að íslenskur og erlendur aðili taki upp slíkt samstarf sem þýðir í raun að hinn erlendi aðili hefur meiri og minni stjórnunarítök í hinu íslenska fyrirtæki. Bannið er því raunverulega varla þess pappírs virði sem það er skráð á. Og þegar svo háttar til og þegar við horfum á það líka að Íslendingar, íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, eru í óðaönn að fjárfesta erlendis í miklum mæli, ekki vegna þess að þau hafi áhuga á því að komast til áhrifa utan landsteinanna heldur vegna þess að þau sjá í þeirri fjárfestingu hagnaðarvon, þá hljótum við að spyrja okkur að því hvort ekki sé tímabært að aflétta þessum hömlum og halda þannig á málum að allar íslenskar atvinnugreinar séu jafnréttháar, að ein sé ekki undir þá sökina seld að geta ekki nýtt sér erlent fjármagn nema sem lánsfé ef það er í boði sem áhættufé.

Hvers vegna skyldum við vilja neyða íslenska atvinnurekendur til þess ef þeir eru í fjárhagsvandræðum, ef þá vantar rekstrarfé? Hvers vegna skyldum við neyða þá til þess? Hvers vegna er það aðeins fáanlegt erlendis frá í formi lánsfjár, tryggs lánsfjár, en þeim aldeilis ekki heimilt að nýta sér hugsanlegan vilja erlendra fjárfesta til að leggja fram áhættufé, til þess að hætta fé sínu í hina íslensku atvinnustarfsemi?

Herra forseti. Ég tel að rétt skref sé stigið með þessu frv., finnst eðlilegt að byrjað sé á fyrirtækjum í vinnslu sjávarafurða, m.a. vegna þess að við eigum enn eftir að ganga endanlega frá eignarhaldi á sjálfri auðlindinni. En það er nú vonandi skammt í að það verði með tillögum auðlindanefndar um að festa í stjórnarskrá þjóðareign á auðlind fiskimiðanna og hvernig stjórnvöldum sé heimilt að ráðstafa henni til skamms tíma.

Virðulegi forseti. Ég vil líka vekja athygli á því, og beini orðum mínum sérstaklega til hæstv. viðskrh., að svo háttar til að Íslendingar eru nú í sókn á erlendum mörkuðum til þess að reyna að fá erlenda fjárfesta inn í íslenskt atvinnulíf. Það birtist með margvíslegum hætti, t.d. þannig að Verðbréfaþingið á Íslandi á nú í --- mér er ekki alveg kunnugt um hvort samningunum er lokið en þeir stóðu a.m.k. yfir, þ.e. samningum um samstarf verðbréfaþinga á Norðurlöndum um sameiginlegan verðbréfamarkað. Með því eru Norðurlöndin að reyna að opna enn meira en áður var leið erlendra fjárfesta inn á hinn norræna markað. Og við eigum hlut að því með þátttöku í samstarfi um samnorrænt verðbréfaþing. En við komum þangað inn eins og maður á einum fæti. Við komum ekki að fullu inn í það samstarf vegna þess að lunginn af þeim fyrirtækjum sem eru á Verðbréfaþingi á Íslandi eru lokuð erlendum fjárfestum. Þetta er svona svipað og að bjóða upp á breiðbandið en lokaður væri aðgangur að öllum vinsælustu eða þýðingarmestu sjónvarpsstöðvunum sem þar væri að fá. Þannig að þegar erlendir aðilar, erlendir fjárfestar, sem kynna sér hið samnorræna verðbréfaþing og ætla að skoða álitleg fyrirtæki á Íslandi, nota sína tölvu til þess að smella á þau og fá nánari upplýsingar þá kemur í ljós að því sem næst öll áhugaverðustu fyrirtækin á Íslandi eru lokuð fyrir erlendu fjárfestunum. Okkar þátttaka í hinu norræna verðbréfaþingi er því nánast á austurevrópskum forsendum eins og þær voru í gamla daga.

Fyrir þeim aðilum sem við erum að sækjast eftir að fá til viðskipta við okkur, fá til að leggja fram sitt áhættufé, er aðgangurinn lokaður. Þeim er lokaður aðgangur að flestum þeim fyrirtækjum sem eru á hinu íslenska Verðbréfaþingi. Og það er ekki nokkur leið fyrir þá að fá nokkurn afruglara í því sambandi. Það er ekki hægt að komast þar að.

Hvaða alvara er fólgin í því að taka þátt í slíkri sókn af hálfu Norðurlanda inn á alþjóðlegan markað um fjárfesta þegar þátttaka Íslands er raunverulega eins og hjá manni sem fer í keppni í einhverri íþróttagrein með t.d. aðra höndina bundna á bak aftur eða annan fótinn bundinn?

Ég held það væri áhugavert fyrir okkur alþingismenn ef hæstv. viðskrh. --- og ætla ég að ljúka máli mínu á því og beina þeim tilmælum til hæstv. viðskrh. hvort hún gæti ekki lagt hér inn á lestrarsal fyrir okkur lista yfir þau fyrirtæki, sem ekki eru nú mjög mörg, sem eru á Verðbréfaþingi á Íslandi og jafnframt taka það sérstaklega fram á þeim lista hvaða fyrirtæki af þeim eru lokuð erlendum fjárfestum. Það er nefnilega mjög áhugavert fyrir alþingismenn og landsmenn alla að skoða hvernig landið okkar ætlar sér að fara inn í hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi með aðra höndina bundna á bak aftur, með því að bjóða erlendum fjárfestum í flestum tilvikum minnst áhugaverðu fyrirtækin.

Virðulegi forseti. Það er ekki mikið verk að vinna svona, taka þetta saman. Það er fljótgert. Ég ítreka það hvort hæstv. viðskrh. vildi nú ekki vinna svona samantekt fyrir okkur og leggja fram á lestrarsal Alþingis svo menn gætu séð hvernig Ísland ætlar sér að mæta til leiks í heimi alþjóðlegra viðskipta.