Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:19:27 (463)

2000-10-12 14:19:27# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur er út úr kú, að halda því fram að það fari eftir efnahagsástandi og afkomu viðkomandi þjóðar hvort hún hefur áhuga eða ekki á því að fá erlenda fjárfestingu. Það eru nú til þær þjóðir sem hafa það efnahagslega betra en við, t.d. Bandaríkjamenn. Ætlar hv. þm. að halda því fram að Bandaríkjamenn séu andvígir erlendri fjárfestingu? Japanir, eru þeir andvígir erlendri fjárfestingu? Norðurlandaþjóðirnar, eru þær andvígar erlendri fjárfestingu? Alveg fráleitt.

Hv. þm. hélt því líka fram áðan að hætta væri á að arður sem erlendir fjárfestar hefðu af fjárfestingu sinni færi beint úr landi. Ég leyfði mér að benda honum á dæmi. Ég hafði að vísu ekki fyrir mér athuganir í þeim efnum sem gerðar hafa verið nema frá einum stað, einu héraði, þ.e. Wales þar sem uppbygging hefur verið gríðarleg fyrir tilverknað erlendra fjárfesta. Þar liggur fyrir að þorrinn af arðinum af hinni erlendu fjárfestingu var notaður til áframhaldandi fjárfestinga í landinu sjálfu, í óskyldum atvinnugreinum vel að merkja. Hin erlenda fjárfesting var ekki bara uppbygging í þeim skilningi heldur leiddi hún til frekari uppbyggingar í öðrum greinum en fjárfest var í upphaflega.

Svarið við fjárhagsvanda íslensks sjávarútvegs er að sjálfsögðu að auka eigið fé, auka áhættuféð en ekki lánsfjáröflunina.