Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:21:05 (464)

2000-10-12 14:21:05# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Já, það þarf að bæta rekstrarskilyrði greinarinnar og laða að henni aukið eigið fé en það þarf ekkert að vera útlent fé. Hversu margir milljarðatugir streyma úr landi í fjárfestingar erlendis? Er endilega víst að það væri óhagstæðara fyrir íslenska þjóð að eitthvað af þessu fé leitaði í staðinn í sjávarútveginn og styrkti stöðu hans með það að markmiði að arðurinn af þeim fjárfestingum færi í umferð hér innan lands?

Ég held því fram, þrátt fyrir alla hagfræðiþekkingu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að atvinnuástand og efnahagsástand skipti máli þegar að því kemur að meta hversu hagstæðar eða mikilvægar fjárfestingar á einu svæði eða ákveðnu efnahagskerfi eru. Eða kannast hv. þm. ekkert við að það hafi verið rætt hér á Íslandi, í samhengi við stórfjárfestingar, álverið og annað slíkt, að það skipti máli hvort hér er þensla eða kreppa? Auðvitað gerir það það. Það þarf ekki að ræða það frekar.

Varðandi erlendar fjárfestingar í Bandaríkjunum eða annars staðar þá eru þær yfirleitt í grófum dráttum í jafnvægi. Ég býst við að erlendir aðilar fjárfesti minna í Bandaríkjunum en þeir fjárfesta annars staðar. Þess vegna þarf að skoða erlendar fjárfestingar nettó ef eitthvert vit á að fást í umræðuna.