Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:25:03 (466)

2000-10-12 14:25:03# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Því miður átti ég aldrei kost á því að eiga orðastað við Adam Smith, þó forneskjulegur sé, þannig að ekki var það nú þannig að Adam Smith væri að svara sjónarmiðum mínum. Það hefðu þó örugglega orðið líflegar umræður ef við hefðum náð að ræða málin.

Hér hefur orðið smámisskilningur því ég er algjörlega sammála hv. þm. um að auðvitað er mjög margt fleira auðlindir fyrir Íslendingar en bara fiskurinn einn. En við vorum fyrst og fremst að fjalla um þá auðlind í þessari umræðu, þ.e. við vorum ekki að ræða hér um hugbúnaðargeirann, ferðaþjónustuna, landbúnaðinn eða annað slíkt. Við vorum að ræða hér um sjávarútveginn sem hefur verið mikilvægasta undirstaða íslensks efnahagslífs. Það er rétt að vægi hans er að minnka og það er í sjálfu sér gott, ekki vegna þess að við viljum ekki sjávarútveginum vel heldur vegna þess að þá breikkar undirstaða efnahagslífisins og við verðum síður háð sveiflum o.s.frv., það er þróun sem við fögnum öll og gleðjumst yfir.

Ég held að hv. þm. þurfi bara að ræða aðeins betur við mig um viðhorf mín almennt til viðskipta áður en hún dæmir mig svona afdráttarlaust eins og hún gerði. Oft er betra að maður útskýri sín viðhorf sjálfur en aðrir taki það að sér að gera það fyrir mann.

Ég var ekki að tala um annarleg sjónarmið, ég vil taka það fram að síðustu, ég spurði einfaldlega: Hafa komið einhverjar kröfur frá aðilum sem hugsanlega gætu gert athugasemdir við þessar takmarkanir Íslendinga en gerðu það ekki á símum tíma, féllust á þær, aðilar eins og Evrópusambandið, Alþjóðaviðskiptastofnunin eða mögulega OECD, sem líka er meðal þeirra sem fjalla um reglur af þessu tagi og var reyndar að reyna að búa til mikinn samning um alþjóðlegar fjárfestingar, svonefndan maísamning? Ég spurði af því að mér er ekki kunnugt um það. Ég veit ekki til þess að uppi hafi verið neinar kröfur af hálfu annarra aðila á okkar hendur um að við breyttum þessu. Þá er það alfarið okkar eigin ákvörðun, innlend ákvörðun. Við getum að sjálfsögðu rætt það, ef menn vilja breyta þessu, vilja fella þetta niður. En þá ræðum við það á þeim forsendum að þetta sé bara okkar mál.