Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:49:33 (472)

2000-10-12 14:49:33# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan. En ástæða þess að ég bað um andsvar við ræðu hans var vegna aðkomu hans að auðlindanefnd en í henni átti ég sæti.

Hv. þm. talaði um að auðlindanefnd hefði lagt til gjaldtöku á aflaheimildina sem mundi gera rekstur fyrirtækjanna erfiðari en talaði síðan um að nauðsynlegt væri að rýmka til hvað aðrar reglur snerti. Ég held, virðulegi forseti, að viðhorf hv. þm., sem hafa komið fram, séu ekki þess eðlis að hann telji eðlilegt að eftir að aðgangur að auðlindinni er takmarkaður, aðgangurinn er orðinn verðmæti í eðli sínu, að þá sé slíkur aðgangur gefinn. Á móti kemur hins vegar að auðlindanefndin leggur jafnframt til að rýmkað verði til um þær reglur sem hv. þm. nefndi áðan.

Ég vildi að það lægi fyrir í umræðunni að á móti kemur að um leið og menn hafa greitt fyrir þennan aðgang, greitt fyrir þau verðmæti sem þeir hafa fengið, er eðlilegt að menn hafi rýmkaðar ráðstöfunarheimildir hvað varðar þau verðmæti.