Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:56:47 (476)

2000-10-12 14:56:47# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér þykir miður ef hæstv. iðn.- og viðskrh. lítur svo á að ósk mín sé fram komin vegna einhvers vantrausts á hana sem ráðherra í þessum málaflokki. Svo er aldeilis ekki. Mér finnst að hún hafi sýnt aðdáunarvert fordæmi öðrum ráðherrum í því bæði að vera viðstödd fyrirspurnatíma í gær og geta tekist á við þær fyrirspurnir sem fram voru komnar, ein ráðherra, sem og að taka þátt í umræðunni í dag.

Hins vegar vitum við sem hér erum ekki hvað hæstv. utanrrh. er að meina. Það kann að vera að hæstv. iðn.- og viðskrh. og flokkssystir ráðherrans viti hvað hann er að meina með því að segjast vera tilbúinn að endurskoða afstöðu sína til fjárfestinga í sjávarútvegi. Það hefur hins vegar ekki komið það glöggt fram að okkur hinum sé það ljóst. Eins og jafnan er best að slíkt komi fram án milliliða. Það er því fullkomlega eðlilegt, herra forseti, að farið sé fram á það af hálfu þeirra sem standa fyrir umræðunni og þeirra sem vilja taka í henni þátt að hæstv. utanrrh. gefist kostur á því að vera við umræðuna, skýra viðhorf sín og taka þátt í henni eftir atvikum.

Eins og hefur komið fram eru menn mjög viljugir að ræða hvernig stöðu Íslands er háttað þegar fjárfestingar eru annars vegar, hvort sem það eru erlendar fjárfestingar hér á landi eða fjárfestingar Íslendinga erlendis. Sannarlega heyra þessi mál að stórum hluta undir hæstv. iðn.- og viðskrh. en vegna yfirlýsinga hæstv. utanrrh. er það skoðun mín og okkar flm. að annað sé ótækt en að hæstv. utanrrh. fái til þess tækifæri að vera þátttakandi í umræðunni og við fáum til þess tækifæri að spyrja hann frekar út í skoðanir hans. Ná þær bara til þess sem hér er lagt til, sem er lítið spor eins og er réttilega bent á, eða ná þær lengra? Hvernig sér þá hæstv. ráðherra það fyrir sér gerast? Er það í einhverjum takti við það sem aðrir hafa rætt eða hvað?

Best er auðvitað og æskilegast að fá þau sjónarmið fram beint frá hæstv. utanrrh. og þess vegna, herra forseti, ítreka ég beiðni mína um frestun umræðunnar.