Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:26:02 (480)

2000-10-12 15:26:02# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði, og ég ætla að vona að ég hafi náð því rétt, að aukin þátttaka lífeyrissjóðanna í velferðarkerfinu bæti ekki stöðu þeirra sem nú eru á örorkulífeyri, og ætla ég að vona að þetta sé rétt eftir haft. Lagaskylda hefur verið að eiga aðild að lífeyrissjóði frá 1980 fyrir sjálfstætt starfandi og frá 1974 fyrir alla launþega og lagaskylda hefur verið að greiða í lífeyrissjóð fyrir alla sem eru á vinnumarkaði frá 1974, í 26 ár.

Það er því afar sjaldgæft að einhver maður sé öryrki í dag sem var úrskurðaður fyrir þann tíma, því að hann hefði þá orðið öryrki mjög ungur, annars væri hann kominn á ellilífeyri. Velflestir öryrkjar í dag hafa því verið á vinnumarkaði og hafa greitt í lífeyrissjóð og hafa átt að fá framreikning til 67 ára aldurs hjá flestum sjóðunum nema hjá LSR, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, hjá opinberu sjóðunum og hjá einstaka litlum sjóðum. Allir aðrir fá framreikning, fá mjög myndarlegan lífeyri. Þeir sem voru gamlir þegar þeir gengu í sjóðinn fá kannski ekki nema 20 ár framreiknuð ef þeir hafa verið 47 ára þegar þeir gengu í sjóðinn. Hinir sem voru yngri þegar þeir gengu í sjóðinn fá upp undir 40 ár metin á þennan hátt. Hvort tveggja gefur um 30--60% af tekjum úr lífeyrissjóði.

Ég spyr því hv. þm., hvaða öryrkjar njóta ekki lífeyris úr lífeyrissjóðum fyrir utan þá sem aldrei hafa farið á vinnumarkað, þ.e. þann hóp manna sem eru fatlaðir eða annað slíkt?