Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:33:41 (484)

2000-10-12 15:33:41# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni áðan að hún saknaði framsóknarmanna og var mál til komið. Ég er ekki hissa á því. En án þess að ég ætli að svara fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. þá hafa verið í umræðunni hér tekjutengingar í almannatryggingakerfinu, tekjutengingar örorkubóta við tekjur maka og tekjutengingar í bótum aldraðra.

Mér er kunnugt um að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur verið með starfshóp til að skoða þessi mál og sá vinnuhópur er að störfum. Hins vegar kannast ég ekki við, og vil leiðrétta það, að hafa heyrt að ráðherrann sé þeirrar skoðunar að afnema eigi allar tekjutengingar í þessu kerfi. Ég tek það fram að ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég vil skoða tekjutengingarnar í örorkubótakerfinu og tengingu við tekjur maka. Tvívegis hafa verið stigin skref í átt að því að draga úr þeim. Þetta kerfi hefur verið við lýði um langt árabil en fyrst nú hefur verið dregið úr þessum tekjutengingum. Ég held að það verði að skoða þau mál betur en að afnema allar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu, ég er ekki fylgjandi því. Ég veit að ráðherrann er ekki fylgjandi því heldur.