Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:35:36 (485)

2000-10-12 15:35:36# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég sakni fleiri framsóknarmanna í salinn eftir að hafa hlustað á þetta. Það er greinilegt að framsóknarmenn halda að einhver hafi farið fram á að afnema allar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu. Um það hefur enginn talað nema samstarfsflokkurinn, Sjálfstfl., sem samþykkti á landsfundi sínum fyrir kosningar að afnema allar tekjutengingar. Þennan söng um að afnema eigi allar tekjutengingar verða þeir að syngja við sinn samstarfsflokk. Þannig er það.

Ég vona að hv. þm. komi þessu til skila til félaga sinna í Framsfl. Það hefur komið fram hjá mörgum í umræðu um málið að einhver hafi farið fram á að afnema allar tekjutengingar í kerfinu. Það er enginn að fara fram á það hér.

Við krefjumst þess aftur á móti að staðið verði við að afnema tengingu við tekjur eða laun maka. Við höfum farið fram á það sem hæstv. ráðherra talaði um að hún mundi gera á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins fyrir kosningar á síðasta kjörtímabili. Ég og margir fleiri hlustuðu á það og það er skjalfest.

Ég spyr því hv. þm.: Fyrst hann er í svona góðu sambandi við hæstv. ráðherra og er að vinna fyrir hann í einhverjum nefndum um þessi mál og ég fagna að hann skuli vera þó gera eitthvað í því, hvenær ætlar hæstv. ráðherra að standa við að afnema þessa tekjutengingu? Nú er lag. Frv. kemur til heilbr.- og trn. að lokinni atkvæðagreiðslu, líklega eftir helgina. Þá er hægt að samþykkja að afnema þessa tekjutengingu sem er hróplegt óréttlæti.

Ég ætla að biðja hv. þm. að vera ekki að gaula þetta í takt við Sjálfstfl. og landsfund hans um að afnema allar tekjutengingar. Þess hefur enginn krafist nema landsfundur Sjálfstfl.