Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:51:03 (489)

2000-10-12 15:51:03# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það þurfi að líta á heildarsamhengið þegar menn skoða velferðarkerfið, skattkerfið og bótakerfið þar á meðal. En ég vildi spyrja hv. þm.: Telur hann eðlilegt að tekjur tannlæknis, sem er með 400 þús. kr. tekjur á mánuði, skerði ekki bætur til maka hans, sem hefur sameiginlegt borðhald og slíkt með honum, þannig að þau séu með tæpar 500 þús. kr. á mánuði til ráðstöfunar? Reyndar borgar hann skatt af þessu. Fyrri spurningin er sem sagt: Telur hv. þm. að það sé eðlilegt að öryrki sem á maka með 400 þús. kr. tekjur fái sama lífeyri og annar öryrki sem giftur er öryrkja sem er bara með 70 þús. kr. á mánuði?

Önnur spurningin er: Með sömu hugsun er þeim sem eru í sambúð refsað með því að þeir fá ekki sérstaka heimilisuppbót. Telur hv. þm. eðlilegt að allir fái heimilisuppbót og einnig þeir sem ekki eru í sambúð fái sérstaka heimilisuppbót? Þetta eru bara örfá dæmi úr þeim mikla frumskógi þar sem Íslendingar hafa ýmist tekið tillit til fjölskyldu eða ekki fjölskyldu.