Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:55:14 (492)

2000-10-12 15:55:14# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er að snúa út úr orðum mínum. Það þarf ekkert að vera einhver einstaklingshyggja fólgin í því, einhver kapítalismi að hætti Sjálfstfl. og hv. þm. Péturs Blöndals, að vilja eftir sem áður taka tillit til sjálfstæðs réttar hvers einstaklings og hverrar persónu að vissu marki. Það finnst mér bara vera eðlilegur hlutur. Með þessu er ég ekki að segja að fjölskyldan, fjölskylduaðstæður og aðrar kringumstæður skipti ekki máli líka. Að sjálfsögðu gera þær það. Það sem við ættum í raun að gera er að finna ákveðna, við getum sagt, leið á milli þessara endastöðva, að virða rétt hvers sjálfstæðs einstaklings og tryggja honum sjálfsvirðingu og sjálfstæði sem auðvitað er fólgið í því að hafa einhverjar sjálfstæðar tekjur.

Ég býst ekki við að neitt okkar sem hér erum inni vildum vera í þeirri stöðu að hafa engar tekjur og yrðum að fara til maka okkar að biðja um aura ef við ætluðum að kaupa okkur úlpu. En þannig er ástandið í dag. Geta menn ekki reynt að setja sig í þau spor? Það er ekki verjandi og það er ekki réttlætanlegt. En það er ekki þar með sagt að við ætlum að fletja allt almannatryggingakerfið út og ekki taka að neinu leyti tillit til aðstæðna eða tekna. Við erum að leita að einhverri hóflegri millileið í þessum efnum og munum væntanlega alltaf gera það. Ég held að öfgarnar í báðar áttir séu þarna vitlausar. Þess vegna finnst mér þetta skref vera rétt og skynsamlegt og fyrir löngu tímabært en ég tók það jafnframt fram og endurtek að í mínum huga er þetta ekki endastöð í þessu máli.