Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:56:59 (493)

2000-10-12 15:56:59# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hér hafa farið fram áhugaverð orðaskipti og fráleitt þegar reynt er að snúa persónurétti upp í einstaklingshyggju eins og hér var gert fyrir nokkrum mínútum.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur fylgt þessu frv. þingflokks Samfylkingarinnar ákaflega vel úr hlaði. Bæði er greinargerðin með þessu máli skýr og gefur þær upplýsingar sem þingmenn þurfa á að halda til að kynna sér þau mál sem hér eru til umfjöllunar og jafnframt gerði þingmaðurinn góða grein fyrir þeim upplýsingum sem hér koma fram. Við höfum auðvitað tekið á réttindamálum á liðnum árum. Stundum er eins og við stöndum í stað og lítið gerist, menn láta sér lynda að þau lög sem eru við lýði séu óbreytt. En sem betur fer er yfirleitt tekið á réttindamálunum og það höfum við verið að gera á Alþingi á liðnum árum.

Á bls. 3 í þessari greinargerð er vísað til bókar Stefáns Ólafssonar prófessors, Íslenska leiðin, sem mjög oft hefur verið vitnað til á Alþingi. Þar var gerð úttekt á íslenska velferðarkerfinu og farið mjög ítarlega yfir galla þess og kosti. Eins og þar kemur fram bendir hann á að hér sé í gildi skerðingarregla í almannatryggingakerfinu sem sé mjög fátíð og sérstök fyrir Ísland, þ.e. skerðing lífeyris öryrkja vegna tekna maka þeirra. Hann heldur því fram --- og Stefán Ólafsson prófessor er ekki pólitíkus, hann hefur farið mjög efnislega í þau mál sem honum hafa verið falin --- að þessi regla sé arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar frá fyrri öldum þar sem framfærsluskylda var hjá fjölskyldunni eða ættingjum.

Við höfum haft fleiri slík lög þar sem beinlínis hefur verið um að ræða arfleifð frá gömlu fátækraaðstoðinni. Ég ætla að vekja athygli á því sem við höfum gert á liðnum árum varðandi það. Við höfum hafnað þessari hugsun í lagasetningu hér á Alþingi á síðasta áratug. Ég get bent á lögin um félagslega aðstoð sveitarfélaga sem voru að mig minnir sett árið 1991 og tóku gildi 1992. Þau lög leystu af hólmi gömul framfærslulög frá 1936 sem byggðust á hugsuninni um fátækraaðstoðina og að framfærsluskylda væri lögð á fjölskyldu og ættingja. Þessi hugsun var frá þeim tíma er hér á landi var í gildi samkvæmt lögum ákveðin sveitfesti þess fólks sem lenti í erfiðleikum við áföll og þurfti að leita aðstoðar sveitarfélags. Þá var svo strangt á um það kveðið í lögum að sækja þurfti greiðsluna fyrir þessum stuðningi sveitarfélagsins þar sem viðkomandi hafði áður búið. Þvílík niðurlæging fólst í því þegar ekki einu sinni búseta gilti heldur þurfti að elta það uppi hvar fólk hefði síðast átt lögheimili áður en erfiðleikar og áföll dundu á því og rukka sveitarfélagið þar sem sveitfesti var.

[16:00]

Ég held að ég muni það rétt að algjör og fullur stuðningur var við það hér í þessum sal að gera þá breytingu sem gerð var með lögum um félagslega aðstoð sveitarfélaga þar sem þetta sveitfesti var afnumið og þar sem það var fest í lög að sveitarfélög settu sér kvarða yfir stuðning sinn og það væri réttur einstaklings að leita eftir slíkum stuðningi. Ég ætla ekki að gera þeim lögum frekari skil, enda erum við að ræða hér um nýja lagasetningu.

Ég ætla samt að minna á að 1992 tóku gildi önnur lög um málefni fatlaðra þar sem líka var verið að taka á því sem máli skiptir, að afnema það sem í felst niðurlæging og vanlíðan fylgir, og reyna að setja lög þar sem fólki er gert kleift að lifa með reisn, jafnvel þar sem erfiðleikar steðja að eða þar sem örorka eða annað skapar erfiðleika í framfærslu. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram við umræðuna og vegna þeirra athugasemda sem komið hafa fram.

Hvor tveggja þessi lög byggja í raun og veru á hugsun jafnréttis og réttlætis og reisn í mannlegu samfélagi. Það er sú sama hugsun og fylgdi lagasetningunni þegar sett voru lög um almannatryggingar og kom fram þá, eins og segir í grg., að í þeim ætti að felast hrein persónutrygging. Ég geri mér alveg grein fyrir að þessi lög voru á sínum tíma sett af samsteypustjórn Alþfl. og Sjálfstfl., en þau lög voru baráttumál jafnaðarmanna til margra ára og framkvæmd þeirra sett á oddinn af jafnaðarmönnum þegar gengið var til þeirrar ríkisstjórnar. Hins vegar hefur það gerst í áranna rás og á þeim árum sem síðan hafa liðið, að almannatryggingalögin eru eitt af því sem sjálfstæðismenn hafa sett mjög á oddinn og hreykt sér af á t.d. pólitískum fundum og ástæða til að minna á að þegar góð lög hafa verið sett í þessum samsteypustjórnum vilja allir Lilju kveðið hafa. Þannig er það nú.

Ég vil líka árétta það sem hefur komið fram í umræðunni að við erum með ákveðið öryggiskerfi og öryggisnet. Eitt af því eru atvinnuleysisbæturnar og það er þannig að þeir sem missa atvinnuna fá atvinnuleysisbætur og þær eru óháðar tekjum maka. Þar er persónurétturinn algjör. Og þó að atvinnuleysisbætur séu lágar og allt of lágar eins og bætur lífeyristrygginga eru almennt er það samt mjög mikilvægt fyrir þann sem verður atvinnulaus að eiga rétt á þessum krónum, eiga rétt á þessari fjárhæð til viðurværis meðan atvinnuleysið stendur. Ég hef ekki nokkru sinni heyrt því haldið fram að ef viðkomandi er giftur, hvort sem er tannlækni eða öðrum, þá eigi viðkomandi að missa þær bætur eða missa þær niður í um 17 þúsund kr. eins og gerist í dag með lífeyrisgreiðslurnar. Þetta er vegna þess að þær bætur byggja á persónurétti og það er það mikilvæga í hugsuninni um tryggingakerfið og öryggisnetið okkar.

Ég vil árétta það að bók Stefáns Ólafssonar, Íslenska leiðin, er úttekt á íslenska velferðarkerfinu. Hún á að vera kennslubók okkar þingmanna. Þar er dregið fram hverju er ábótavant og hvar við stöndum okkur sæmilega í samanburði við aðrar þjóðir. Það var mjög athyglisvert að þegar sú bók kom fram bentu stjórnarliðar gjarnan á hversu mikilvæg hún væri fyrir sjónarmið þeirra þegar þeir gátu bent á þau atriði þar sem við stóðum okkur í samanburði þjóðanna en vildu ekkert um það ræða þar sem verulega var ábótavant eða þar sem minnt var á að við byggjum við arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar.

Mér finnst líka að það hafi komið fram í orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals að við værum að leggja til að afnema allar tekjutengingar, líka tekjutengingar við eigin tekjur, miðað við hvernig hann hefur sett fram fyrirspurnir sínar. Ég tek náttúrlega fram að það felst ekki í þessu frv. heldur er verið að leggja til að bæturnar séu ekki bundnar tekjum maka.

Einmitt vegna þess að allir þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð búa við það að greiðslur úr lífeyrissjóði skerða greiðslur úr almannatryggingum, þá er ljóst að kostnaður við þessa breytingu er umtalsvert minni en ef við værum ekki að tala um eigin tekjutengingar, líka hvað lífeyrisgreiðslur varðar. Og ef ég man rétt erum við að tala um að þetta afnám við tekjur maka kosti einhver hundruð milljóna. Við skulum líka muna að fyrir utan tekjutenginguna fær maki, þegar um það er að ræða að viðkomandi er maki einhvers, um þriðjungi lægri greiðslu vegna þess sem þegar hefur komið fram hérna með heimilisuppbætur og sérstakar heimilisuppbætur.

Ef menn eru að hengja sig í kostnaðinn er vert að minnast þess að síðan árið 1993 og 1994 hefur dregið gífurlega í sundur með almennum launum og greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins og það hefur komið fram í því sem að okkur hefur verið rétt í útreikningum frá t.d. samtökum aldraðra og öryrkja að þar munar milljörðum, mörgum milljörðum. Það eru pólitískar ákvarðanir sem þar eru að baki. Þess vegna skiptir líka máli að það kostar ekki mikið að ganga til þessarar lagabreytingar, en hún er mjög mikilsverð og hefur verið sett á oddinn af t.d. samtökum öryrkja til margra ára.

Að lokum, herra forseti. Bent var á það af fulltrúa vinstri grænna að mikilvægt væri að skoða samspil lífeyriskerfisins, almannatrygginga og skattkerfisins, það væri stóra málið. Ég tek undir það og minni á að þegar Samfylkingin kynnti málaskrá sína í upphafi þings kom fram að við erum að vinna við og skoða það að setja fram frv. um afkomutryggingu sem byggir á þessari hugsun.

En grundvallaratriði af okkar hálfu er það, sem hér er flutt, að afnema viðmið við tekjur maka.