Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:08:45 (494)

2000-10-12 16:08:45# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig fullkomlega á því að frv. gengur bara út á tekjur maka en ekki út á tengingu við tekjur öryrkjans sjálfs, ég átta mig fullkomlega á því.

Mig langar til að spyrja hv. þm., og ég ætla ekki að spyrja sömu spurningar og ég spurði hv. þm. Steingrím J. Sigfússon heldur ætla ég að spyrja nýrra spurninga þar sem ég hef rekist á fullt af atriðum sem tengja fjölskylduna. Nú er persónuafsláttur háður tekjum maka, þ.e. persónuafsláttur er fluttur í auknum mæli, það var 80% hér áður fyrr, síðan 85% og fer upp í 100%. Þar má einstaklingur nýta persónuafslátt maka síns ef sá hefur ekki tekjur, þ.e. hann fær aukinn styrk frá ríkinu eða stuðning ef maki hans hefur lágar tekjur.

Hvað kemur honum þetta eiginlega við? Ef öryrkjanum kemur ekki við hversu háar tekjur maki hans hefur hvað kemur þá venjulegum launþega við eða öryrkja hve lágar tekjur maki hans hefur? Þarna erum við nefnilega að fara inn á aðra braut og í þveröfuga átt við það sem lagt er til í frv.

Ég er ekki að segja að ég sé á móti einu eða öðru. Ég er bara að benda á þetta.

Síðan er það spurningin um einstaklingshyggjuna sem er vaxandi. Þetta frv. gengur út á það og hv. þm. nefndi aftur og aftur í ræðu sinni, að það væri persónuréttur einstaklingsins að hann fengi lífeyri sinn óháð tekjum makans. Þetta er einstaklingshyggja, herra forseti. (Gripið fram í) Þetta er einstaklingshyggja.

Ég bendi á í sambandi við atvinnuleysisbæturnar, sem hv. þm. nefndi líka, að í mörgum löndum er greitt iðgjald til atvinnuleysisbóta og við erum farin að taka það upp á Íslandi líka, og þar sem iðgjald er greitt, eins og í lífeyrissjóðunum, þá er það einstaklingstrygging.

En ég vildi gjarnan fá svör við þessu með einstaklingshyggjuna og persónuafsláttinn.