Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:10:43 (495)

2000-10-12 16:10:43# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman að eiga orðaskipti við hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ef hann langar til að kalla það sem við erum hér að ræða um einstaklingshyggju, þá má hann það. Við erum að tala um réttlæti, við erum að tala um persónurétt, við erum að tala um jafnræði og við erum að tala um öryggisnet og tryggingar. En ef hann er fastur í þessu orði úr eigin stefnuskrá, að tala um einstaklingshyggju, þá má hann það. Hann má koma hingað og spyrja okkur aftur og aftur.

Það er allt annað að tala um skatta eða almannatryggingar og persónurétt. Það er tvennt ólíkt. Og ég minni þingmanninn líka á að skattaleg meðferð ræðst af uppruna tekna. Það jafngildir ekki því að uppruni tekna eigi að ráðast af skattalegri meðferð. Ég hygg að þetta sé grundvallaratriði í svari mínu til þingmannsins.