Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:13:35 (497)

2000-10-12 16:13:35# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að gaman væri að eiga orðaskipti við hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég held næstum því að ég verði að taka það til baka því að mér finnst þingmaðurinn vera farinn að þvæla.

Ef einn hefur 70 þúsund, sem eru þá væntanlega lágmarkslaun, og annar hefur eitthvað annað, þrjú, fjögur eða fimm hundruð þúsund, og ef báðir makarnir eru að vinna fyrir lágmarkslaunum, þá hafa önnur hjónin tvisvar sinnum lágmarkslaun og hin meira. Það er þannig.

Ef þeir makar sem eru á lágmarkslaununum lenda á atvinnuleysisbótum fá þeir jafnt. Þeir fá ekki lágmarkslaunin. Þeir fá aðra tölu.

Við erum að tala um að það eigi ekki að tekjutengja greiðslur almannabóta við tekjur maka og við erum að tala þess vegna um að maki fái meira en 17 þúsund. Hann fengi engin 70 þúsund, það ætti þingmaðurinn að vita, hann fengi engin 70 þúsund. Og hann mun áfram fá mun minna en einstaklingur sem er öryrki. Við erum að tala um sanngirni, réttlæti og jafnræði.