Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:29:12 (501)

2000-10-12 16:29:12# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. er mikill stuðningsmaður velferðarkerfisins þannig að það er ánægjuefni og það hefur komið hér skýrt fram. En mig langar aðeins að láta eitt koma fram í viðbót í andsvari við hv. þm. Það er athugasemd sem kemur reyndar frá einstaklingi sem hefur verið að fylgjast með umræðunni (Gripið fram í.) utan úr bæ og ég vil bara benda hv. þm. á varðandi umræðuna um öryrkjana sem ekki eiga rétt á greiðslum úr lífeyrissjóði að margir fatlaðra eru fæddir öryrkjar og það veit ég að hv. þm. veit en það hefur ekki komið fram í máli hans (Gripið fram í.) hér í umræðunni. Ég minni á þennan hóp sem er því miður nokkuð stór og hann á engan annan rétt en greiðslurnar úr tryggingakerfinu. (PHB: Þetta eru 3--5% af þjóðinni.) Aftur á móti snýst þetta mál kannski ekki endilega um það heldur erum við að ræða um ákveðna tekjutengingu og ég vil gjarnan að við höldum okkur við það hér í umræðunni. Við getum auðvitað tekið til umræðu ýmsa aðra þætti í velferðarkerfinu sem vissulega er ástæða til að skoða eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á. Ég er vissulega tilbúin að fara með honum í þá skoðun og þá umræðu því víða er pottur brotinn sem þarf að athuga og þarf að laga.