Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:30:46 (502)

2000-10-12 16:30:46# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef margoft nefnt þá sem eru fæddir fatlaðir og fara aldrei á vinnumarkað. Það er hópur sem við þurfum að gæta alveg sérstaklega að. Og það er gert. Ég nefni sambýli fatlaðra. Við í hv. félmn. höfum heimsótt nokkur sambýli og ég verð að segja það að sum hver eru alveg frábær. Þar er fötluðum búin frábær aðstaða. Ég þekki að sjálfsögðu ekki allt og það er örugglega einhvers staðar pottur brotinn. En þetta er hópur sem þarf að gæta sérstaklega að.

En þessi hópur kemur ekkert inn í umræðuna. Þess vegna datt mér ekki í hug að nefna hann vegna þess að ég hélt að við værum að ræða um fólk sem býr með hátekjumönnum, það er það sem við erum að ræða hér, þ.e. að tekjur maka komi ekki inn í útreikning á lífeyri öryrkja.

Auðvitað gæti maður rætt endalaust um velferðarkerfið. Það er svo flókið og það eru svo margir endar að ég get örugglega haldið hérna sex tíma ræðu um velferðarkerfið út og suður og talað um ýmsa þætti en ég sleppti því að nefna þennan hóp fólks sem er í flestum þjóðfélögum 3--5%. Það er sá hópur fólks sem fer aldrei á vinnumarkað. Hann nýtur ekki réttinda úr lífeyrissjóði. Hann býr við bætur almannatrygginga og hann þarfnast sérstakrar athygli okkar og skoðunar. Allir aðrir eiga að vera með rétt úr lífeyrissjóði. Þess vegna frábið ég mér að heyra aftur og aftur talað um það að fólk sé á strípuðum bótum almannatrygginga sem er í öðrum hópum.