Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:32:54 (503)

2000-10-12 16:32:54# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta hefur verið ákaflega athyglisverð umræða. Í henni hafa komið fram sjónarmið sem er óhætt að segja að eru algjörleg andstæð. Að vísu vil ég alls ekki halda því fram að hv. þm. Pétur Blöndal sé á móti velferðarkerfinu eða honum sé sérstaklega illa við þá sem þurfa á umönnun þess að halda. En hv. þm. gat þess áðan að honum þætti sárt að fá ásakanir sem stöppuðu e.t.v. nærri slíku.

Hins vegar er það þannig að hv. þm. tjáir sig með þeim hætti að ákaflega erfitt er að verjast grunsemdum um að honum finnist sem skjólstæðingar velferðarkerfisins séu stöðugt að reyna að finna einhvers konar agnúa, galla á kerfinu, til að geta orðið sér úti um bætur sem þeir eigi í reynd ekki skilið. Þetta finnst mér, með fullri virðingu og í fullri vinsemd, smita frá málflutningi hv. þm. Hann getur auðvitað komið og leiðrétt þetta en mér finnst sem hv. þm. tali ekki af nægilegri virðingu og ekki nægum skilningi um skjólstæðinga þessa kerfis.

Til að mynda leyfi ég mér að fullyrða að sú hugmyndafræðilega nálgun sem hv. þm. beitir þegar hann fjallar um þetta viðfangsefni á betur heima á þeirri öld sem liðin er og jafnvel öldinni þar á undan en þeirri sem við lifum á í dag. Mér finnst sem hugmyndafræði hv. þm. einkennist af gustuk, af ölmusu, og það er hugmyndafræði sem er horfin.

Hv. þm. vísaði til velferðarkerfis í Kópavogi, sem hann þekkir bersýnilega vel, þar sem öryrkjar geta fengið gefins mat. Ég verð að segja, herra forseti, að það er slíkt velferðarkerfi sem ég tel að við eigum ekki að halda úti. Við eigum ekki að halda úti velferðarkerfi sem er þess eðlis að menn þurfi að fá matargjafir til þess að skrimta.

Ég þekkti einu sinni gamlan mann sem greindi mér frá því að þegar hann var ungur maður og átti við erfiðan sjúkleika að stríða þurfti hann til að geta dregið fram lífið að fá fyrir jólin brúnan stóran bréfpoka fullan af mat frá borgarstjórn Reykjavíkur. Hann sagði að sér hefði aldrei sviðið eins sárt yfir stöðu sinni og þá. Þetta var afi minn. Ég gjörþekki þetta. Það var ekkert sem hann í hárri elli sinni ræddi jafnoft um og þessa ölmusu, þetta gustukaverk sem á honum var unnið --- væntanlega af mjög góðum vilja. Eigi að síður leiddi þetta til þess að þetta skapaði á sálu hans sár sem hann gleymdi aldrei.

Ég held því fram, herra forseti, að það sé nákvæmlega þetta sem við eigum að hverfa frá. Ég fæ hins vegar ekki betur skilið en að hv. þm. Pétur Blöndal sé þeirrar skoðunar að þessi hugmyndafræði sé enn þá góð og gild, það sé allt í lagi að halda fólki í slíkri stöðu í íslensku samfélagi að það þurfi að fara til bæjarstjórnarinnar í Kópavogi og fá þar matargjafir. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé smánarblettur á samfélagi okkar að það sé þörf á slíku. Ég tel það óyndisúrræði.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. að auðvitað þarf að hafa kerfið þannig að það sé gagnsætt, menn viti nákvæmlega hvað það er sem menn geti gengið að. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði að oft hefði það komið fram í samtölum hans við þá sem standa í ráðgjöf við fólk að menn vissu ekki af bótum sínum. Ef kerfið er þannig þá er það mikill áfellisdómur að þeir sem eiga um sárt að binda eigi svo erfitt með að finna leiðina í gegnum frumskóg almannatryggingakerfisins að þeir verði bókstaflega af bótum.

Hverjir eru það sem hafa ítrekað komið hingað upp og óskað eftir því að menn hætti þessari plástrasmíð á almannatryggingakerfinu og fari í að endurvinna það? Ég bendi á, herra forseti, að sú hugmyndafræði býr m.a. að baki þeirri tillögu sem við höfum hvað eftir annað varpað fram í umræðunum að kerfið verði skorið upp og sett verði fram sérstök afkomutrygging sem tryggi að fólk komist af.

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur efalítið, af því hann er skýr maður og fljótur að lesa, lesið þá bók sem heitir Íslenska leiðin og er úttekt á ýmsum þáttum íslenska velferðarsamfélagsins. Ég kalla þessa bók Íslensku neyðina vegna þess að í henni koma fram ákaflega alvarlegar staðreyndir. Þar einmitt er gert að umræðuefni þessi mismunandi nálgun sem birtist annars vegar af hálfu okkar sem höfum talað frá stjórnarandstöðunni og Péturs Blöndals.

Við erum þeirrar skoðunar að í nútímasamfélaginu eigi allir að hafa sinn borgaralega rétt, öryrkinn eins og aðrir menn. Öryrkinn á að geta dregið fram líf sitt án þess að vera einhvers konar þiggjandi ölmusuverka frá stjórnvöldum. Hann á ekki að þurfa að fá matvæli gefins frá bæjarstjórn Kópavogs þó að það sé gert af góðum hug. Hann á ekki að þurfa það í dag, herra forseti.

Gamla fátækraaðstoðin sem var við lýði á 19. öldinni gerði ráð fyrir því að fjölskyldan, eins og það orð upphaflega varð til, ,,fjölskylda``, þ.e. þeir sem að henni áttu aðild hefðu skyldur gagnvart fleirum en sjálfum sér og væru þess vegna í fjölskyldu. Framfærsluskyldan var hluti af þessu.

Við höfum hins vegar horfið frá þeirri hugmyndafræði. Við erum þeirrar skoðunar að sá sem þarf á aðstoð að halda eigi að hafa fullan borgararétt og í þessu tilviki þegar við erum að ræða hérna um skertan framfærslurétt, þá þýðir það að þær bætur sem öryrkinn fær frá hinu opinbera til þess að geta lifað sínu lífi með reisn eiga ekki að skerðast vegna tekna makans. Þetta, herra forseti, finnst mér að sé sú nálgun sem við eigum að hafa.

Ég vísaði í bókina, Íslenska leiðin, sem prófessor Stefán Ólafsson sendi frá sér, þar er þetta reifað í ákaflega skýru máli. Þar er einmitt talað um að skerðing lífeyris öryrkja vegna tekna maka sé arfleifð þessarar gömlu fátækraaðstoðar sem ég held fram að sé löngu úrelt. Ég vona að hv. þm. taki það ekki sem persónulega árás á sig þegar ég segi að ég finn engar leifar þeirrar hugmyndafræði nema í málflutningi hv. þm. Hann hefur þá annaðhvort ekki tjáð sig nógu skýrt eða ég misskilið hann illilega. Ég tek hins vegar eftir því að þeir aðrir sem hafa talað gegn málflutningi hv. þm. hafa skilið þetta nákvæmlega eins og ég.

Stefán Ólafsson prófessor getur þess að vegna þess að menn hafa horfið frá hugmyndafræði fátækraaðstoðarinnar og vilja skilgreina öryrkjana eins og hvern annan borgara með sinn fulla þegnrétt þá hafi vestrænar þjóðir horfið frá þessari framkvæmd velferðarkerfisins nú á dögum.

Mér þykir rétt að benda á að nú þegar eru skerðingarnar sem fólk í sambúð býr við orðnar miklar. Þannig liggur fyrir að lífeyrisþegi sem er í sambúð eða í hjónabandi fær þriðjungi lægri greiðslur en einhleypingur. Þarna liggur nú þegar fyrir skerðing, herra forseti, og má færa rök að því að hún kunni að vera í blóra við ýmsa alþjóðlega sáttmála sem við höfum samþykkt. Ég skal ekki dæma um það á þessu stigi en það liggur einfaldlega fyrir að inn í kerfið er þegar innbyggð skerðing.

Herra forseti. Það eru ekki margir þingmenn Framsfl. við þessa umræðu en óhjákvæmilegt er að geta þess að lagastoðin sem þessi skerðing styðst við var bætt inn í almannatryggingalögin árið 1998 að frumkvæði Framsfl. Það var heilbrrh. Framsfl. sem setti þetta ákvæði inn í lög sem áður hafði einungis verið í reglugerð sem menn höfðu þó verið að berjast gegn. Framsóknarmenn geta þá komið í umræðuna á eftir og skýrt út hvernig stóð á þessu. Þetta var sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að Framsfl. hafði háð heila kosningabaráttu á grundvelli slagorðsins Fólk í fyrirrúmi. Hvernig í ósköpunum er hægt, herra forseti, að halda því fram að einn stjórnmálaflokkur hafi fólkið í fyrirrúmi ef sami stjórnmálaflokkur beitir sér síðan fyrir skerðingarákvæðum af þessu tagi sem eru augljóslega úr takti við ekki bara tíðarandann hér á landi heldur við hugmyndafræðina sem liggur til grundvallar velferðarkerfinu á Vesturlöndum?

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram að þessi skerðingarákvæði sem við þingmenn Samfylkingarinnar leggjum til að verði numin brott úr lögum séu líka brot á stjórnarskránni. Í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Herra forseti. Hvað felst í þessum orðum ,,stöðu að öðru leyti``? Óhjákvæmilegt er annað en draga þá ályktun að hjúskaparstaða hljóti að falla undir þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Sé það rétt þá er alveg ljóst að þetta tiltekna ákvæði er ekki í samræmi við stjórnarskrána. Það kunna vel að vera einhver áhöld um, mér finnst hins vegar að við eigum í þessu tilviki að láta þá njóta vafans sem eru fórnarlömb hans, þ.e. þolendur þessa ákvæðis.

Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem var samþykkt 1948 og Íslendingar hafa verið aðilar að ákaflega lengi, segir líka í 25. gr. sáttmálans að mönnum eigi ekki að mismuna með lögum hvað varðar t.d. hjónabönd. Ákaflega erfitt er að komast hjá þeirri ályktun að verið sé að mismuna mönnum í krafti þess að þeir lifa í hjónabandi.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á það að á síðustu árum hefur orðið áberandi gliðnun á milli almennrar launaþróunar og hins vegar þróunar bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta skiptir miklu máli fyrir stöðu öryrkja og þeirra sem taka bætur samkvæmt almannatryggingakerfinu í dag. Að vísu var hvergi skráð en það var eins konar þegjandi samþykki fyrir því millum samtaka launafólks á sínum tíma og stjórnvalda að bæturnar fylgdu lágmarkslaunum. Frá þessu hefur verið horfið á síðustu árum. Það er þetta sem menn telja eins konar samningsbrot þó að viðkomandi samningur hafi aldrei verið skráður á nein spjöld, sem gerir það að verkum, herra forseti, að bótaþegar eru ákaflega sárir yfir meðferðinni gagnvart sér.

[16:45]

Þetta er hins vegar angi af öðru og stærra máli sem birtist í því að ef við skoðum hvernig þróun skattfrelsismarka hefur verið síðustu ár kemur í ljós að áberandi gliðnun er á milli annars vegar hennar og hins vegar þeirra bóta sem menn eru að fá. Þetta þýðir, herra forseti, að fólk sem áður var verndað af skattkerfinu, fólk sem við áður vildum vernda með skattleysismörkunum er allt í einu farið að borga háa skatta. Kannski ekki háa skatta á okkar mælikvarða, en þegar fólk sem lifir á nokkrum tugum þúsunda á mánuði er farið að borga nokkra tugi þúsunda á ári í skatta og gerði ekki áður munar um það. Þetta fólk munar um hvern þúsundkallinn og hvern fimmþúsundkallinn, herra forseti. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég greini frá því að ef skattfrelsismörkin hefðu fylgt launaþróun árið 1999 fremur en 1998, þá hefði það leitt til þess að ríkið hefði hirt sem nemur 3,5 milljörðum minna í skatta. Auðvitað dreifðist þetta yfir alla. En hverjir báru hlutfallslega þyngstar byrðar? Þeir sem lifa á bótum og lágum launum og ef menn velkjast í einhverjum vafa um þetta er rétt að ég upplýsi að á þessu sama ári fjölgaði virkum skattgreiðendum um 6,8% en nýliðunin í hóp skattgreiðenda, framteljenda, var 1,8%. Munurinn sem þarna var 5% var að stærstum hluta þeir sem komu upp úr hópum sem höfðu ákaflega lágar tekjur og þurftu að hafa framfæri sitt af bótum og lágum tekjum.

Herra forseti. Þetta höfum við rætt áður í þessum sölum. Þetta finnst Sjálfstfl. allt í lagi. Við sem erum hins vegar í stjórnarandstöðunni og viljum beita skattkerfinu öðruvísi teljum að þetta sé mikil ósvinna og mér finnst afskaplega miður að menn skuli verja þetta.

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnunum og ég styð þetta heils hugar og þakka þeim þingmönnum sem hér hafa komið og stutt málið. Ég vildi beina því, herra forseti, til hv. þm. Péturs H. Blöndals sem hefur lýst því yfir m.a. að hann vilji taka upp málstað þeirra sem hann telur að eigi um sárast að binda, þ.e. þeirra sem aldrei hafa komist í lífeyrissjóði, þeirra sem hafa verið fatlaðir frá upphafi lífdaga sinna: Telur ekki hv. þm. Pétur Blöndal að fyrst hann er þessarar skoðunar eigi hann að fylgja því eftir með því að leggja fram stefnu í þeim málum? Telur hv. þm. ekki líka að til greina komi að hann jafnvel sláist í för með okkur sem erum að reyna að leiðrétta áberandi ranglæti? Er ekki kominn tími til, herra forseti, að hv. þm. Pétur H. Blöndal opni augu sín og nálgist þetta viðfangsefni eins og maður sem lifir á 20. öldinni en ekki þeirri 19?