Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:50:12 (505)

2000-10-12 16:50:12# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég reyndi í ræðu minni að hafa gagnrýni mína á málflutning hv. þm. en ekki persónu hans. Ég sagði áðan, herra forseti, að ég vildi gera athugasemdir og sterkar athugasemdir við þá hugmyndafræði sem málflutningur hv. þm. grundaðist á, en ég var ekki með neinar persónulegar árásir á hann. Ég taldi einfaldlega að ég hefði sýnt fram á það með rökum að sú nálgun sem hann hefur gagnvart þessu viðfangsefni er miklu meira í átt við það sem Stefán Ólafsson kallaði hugmyndafræði fátækraaðstoðar 19. aldarinnar fremur en hugmyndafræði velferðarkerfisins eins og það er í dag.

Hv. þm. beindi til mín spurningu um launaþróun og lágmarkslaun. Auðvitað er mér kunnugt um hvernig þetta var og hvað olli því að þetta var gert á sínum tíma. Ég rakti það að fyrr á árum hefði verið ákveðin óskrifuð samstaða og óskrifað samkomulag um að bætur fylgdu lágmarkslaunum og ég sagði að sú staðreynd að þær hefðu ekki gert það hefði valdið mikilli ólgu meðal bótaþega. Ég var að reyna að skýra út fyrir honum af hverju þessi mikla ólga og spenna meðal bótaþega gagnvart Sjálfstfl. stafar. Hún stafar af því að þeir telja að ákveðin þjóðarsátt hafi verið rofin af hálfu núv. ríkisstjórnar.

Hv. þm. kaus að svara ekki ýmsum spurningum sem ég beindi til hans, en mér fannst hann vera að ræða staðhæfingu mína um að nú væri kominn stór hópur bótaþega í hóp skattþega sem ekki hefði verið áður. Hv. þm. benti m.a. á að lífeyrir hefði fylgt neysluverðlagi. Gott og vel, herra forseti. Eitt af því sem mér finnst vanta hjá Sjálfstfl. er að gera sér grein fyrir því, eins og hefur komið fram í umræðunni, að ef þetta er það sem þeir vilja, þá eiga þeir að láta skattfrelsismörkin a.m.k. hækka líka í takt við verðbólguþróun.