Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:52:14 (506)

2000-10-12 16:52:14# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. telur að ólga meðal lífeyrisþega sé vegna þess að þeir skilji ekki að lágmarkslaun hafi verið hækkuð umfram önnur laun og það hafi verið markviss ákvörðun að gera það. Það var ákvörðun aðila vinnumarkaðarins að hækka lágmarkslaun sem voru skammarlega lág, 42 þús. eða 45 þús. kr., upp í það sem þau eru núna, 90 þús. kr., án þess að það hefði áhrif upp allan skalann og út um allt. Þetta tókst með því að láta þau ekki hafa áhrif út um allt. Annars hefði það ekki tekist.

Hv. þm. kom ekki inn á það sem ég sagði, að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum hefði hækkað eins og verðlag, ekki eins og laun. Hann hefur bara ekki hækkað neitt nema eins og verðlag og hann kom ekki inn á það að þetta er helmingurinn af tekjum lífeyrisþeganna og það skýrir að staða þeirra er verri. En þennan lífeyri er ekki hægt að hækka vegna þess að bak við hann stendur verðtrygging húsbréfa og annarra eigna sem líka eru verðtryggð miðað við verðlag.

Hv. þm. kom ekki inn á það sem ég sagði með barnalífeyri einstæðra foreldra og jafnréttið og mismununina með tilliti til hjónabands. Það er mismunun með tilliti til hjónabands. Ef foreldri er einstætt, þá fær barnið hærri lífeyri. Tekið er tillit til fjölskyldunnar þar. Vill hv. þm. hafa það eins á báðum stöðum? Það kostar óhemjumikið. (ÖS: Hvað vill þingmaðurinn?) Ég vil taka tillit til fjölskyldunnar, ég vil það af því að ég held að í henni sé ákveðin samtrygging enn þá. Vilji menn stíga skrefið og hætta að taka tillit til þess og láta það heita einskylda en ekki fjölskylda, þá gerum við það markvisst alls staðar.

Hann svaraði heldur ekki því sem ég sagði, að mikið af þeim tekjuskerðingum sem teknar voru upp voru teknar upp með stjórnaraðild Alþfl. og að kröfu Alþfl. til að bæta stöðu þeirra sem verst voru settir.