Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:54:38 (507)

2000-10-12 16:54:38# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:54]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Um þetta mál hafa verið mikil skoðanaskipti fram og til baka en mér finnst að menn séu ýmist að fara úr barnabótum með einstæðu foreldri, yfir í ellilífeyri eða í lífeyrisgreiðslur. Hér er frv. sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir mælti fyrir og þakka ég henni fyrir það. Ég held að á ferðinni sé hið besta mál og ætla ég eingöngu að fjalla um efni þess.

Ég tek undir það sem segir í frv. um efni þess og að tekjutenging lífeyrisþega við tekjur maka verði afnumin og að tekjutengingin verði aðeins við hans eigin tekjur. Þannig held ég að það eigi að vera og eigi að verða til bóta.

Ég tek líka undir það að greiðslur til lífeyrisþega, ekki síst öryrkja, skuli vera óháðar tekjum maka þeirra þannig að við styðjum sem best við bakið á því fólki sem verst er statt í samfélaginu og einnig að grunneiningu þjóðfélagsins, þ.e. fjölskyldunni.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. Það er búið að vera löng umræða um þetta mál og ég hygg að flest þau atriði sem menn hafa viljað draga inn í umræðuna hafi komið fram. Ég lýsi því einfaldlega yfir að Frjálslyndi flokkurinn mun styðja þetta mál og vona að það nái fram að ganga.