Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:10:09 (511)

2000-10-12 17:10:09# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vitnaði til mín í ræðu sinni og hafði misskilið illa það sem ég hafði sagt enda var hann ekki í salnum.

Ég sagði að lífeyrir frá lífeyrissjóðum hefði hækkað um 0% umfram verðlag. Lífeyrissjóðirnir eru þannig upp byggðir að lífeyrir frá þeim hækkar eins og verðlag. Þeir eru verðtryggðir miðað við vísitölu framfærslu og það er vegna þess að eignirnar eru eins verðtryggðar, þ.e. húsbréfin og lán til sjóðfélaga eru líka verðtryggð miðað við vísitölu framfærslu og neyslu. Þarna er því eðlilegt samhengi á milli og þessi lífeyrir, sem er helmingurinn af öllum lífeyri í landinu, hefur ekki hækkað neitt umfram verðlag nema hjá einstaka lífeyrissjóði.

Almannatryggingar hafa aftur á móti hækkað um 20% á síðustu fimm árum umfram verðlag og launaskrið hefur verið töluvert meira, 25% eða einhvers staðar þar fyrir ofan. Svo hafa lægstu laun hækkað umtalsvert enda var ekki hægt að hækka þau hérna áður fyrr þegar allt var tengt við lægstu laun og þau voru komin niður í 42 þús. kr. sem var algjör skömm.

En það sem mig langar til að spyrja hv. þm. og ég hef spurt aðra að, er varðandi réttlætið í þessu máli og þá er ég ekki að leggja dóm á það hvort hún sé góð eða slæm, þessi einstaklingshyggja sem kemur fram í frv.

Ég spyr hann: Er réttlátt að tveir öryrkjar, þ.e. ef ég er öryrki og byggi með öðrum öryrkja eða lágtekjumanni sem er með 70 þús. kr. á mánuði, að þá séu tekjurnar ekki teknar inn í en ef maki minn væri með 400 þús. kr. á mánuði þá yrðu tekjurnar ekki heldur teknar inn í þannig að við hjónin hefðum 500 þús. kr. til að lifa af en hin hjónin ekki nema 140 þús.? Finnst hv. þm. þetta eðlilegt og réttlátt? Ég spyr. Ég er ekki að leggja mat á það sjálfur. Það er ákveðin einstaklingshyggja sem birtist í þessu frv. eins og ég hef bent á og ég er í sjálfu sér fylgjandi henni.