Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:17:29 (515)

2000-10-12 17:17:29# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hélt ræðu hér áðan og veittist allillilega að persónu minni. Hann gerði mér upp skoðanir og sagði að hugmyndafræði mín og skoðanir væru aftan úr fornöld og þessu slengir hann fram með sleggjudómi án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt. Honum bara fannst málflutningur minn hljóma svona. Þó var ég eingöngu að benda á að gæta þurfi samræmis í velferðarkerfinu, líta á alla þætti velferðarkerfisins þegar gerðar eru á því breytingar. Þetta er það eina sem ég benti á. Ég benti á að sú umræða sem átt hefur sér stað um stöðu öryrkja og aldraðra hefur einkennst af því að menn einblíndu á einn þáttinn, bara á almannatryggingar. Hér hefur samkvæmt lögum verið skylduaðild að lífeyrissjóðum frá 1974 og frá 1980 fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga. Það er skylduaðild að lífeyrissjóðum. Ríkið er búið að tryggja að allir menn eigi rétt í lífeyrissjóði og svo talar enginn um að fólk eigi rétt í lífeyrissjóði. Þetta finnst mér yfirborðskennd umræða og það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hérna áðan voru sleggjudómar. Hann rökstuddi orð sín ekki á nokkurn hátt.

Mín hugmyndafræði, herra forseti, er sú að við þurfum að hafa gott og öflugt velferðarkerfi. Við verðum að hafa það. Það er nauðsynlegt fyrir almenning í landinu. Gott og öflugt velferðarkerfi byggist á sterku atvinnulífi. Það er hvergi nokkurs staðar gott velferðarkerfi þar sem atvinnulífið er í molum. Þess vegna hefur núverandi ríkisstjórn lagt á það áherslu, ofuráherslu, og Sjálfstfl. alla tíð, að styrkja atvinnulífið sem hefur tekist með þeim eindæmum að hv. þm. kveinka sér undan því að tekjur hafi hækkað langt umfram verðlag. Þeir kvarta undan því að barnabætur sem eru tekjutengdar lækka vegna þess að fólk hefur meiri tekjur umfram verðlag. Það er víst töluvert vandamál hvað launin hafa hækkað mikið. Öðruvísi mér áður brá.

Í allri umræðu um velferðarkerfið þarf að gæta að stöðu hins vinnandi manns og stöðu þess sem er á bótum eða lífeyrisþegans og það má ekki halla þarna á. Á hvorugan veginn. Allar bætur velferðarkerfisins, allar bætur þjóðfélagsins eru greiddar af hinum vinnandi. Það getur enginn annar greitt þær, hvort sem það er gert með iðgjöldum, uppsöfnun í lífeyrissjóðum eða með beinum sköttum. Ég bendi á að hver einasti Íslendingur borgar skatta, hver og einn einasti. Þegar 5 ára barn fer út í búð og kaupir kók þá borgar það 20% af verðinu í virðisaukaskatt. Barnið er sem sagt skattgreiðandi eins og allir aðrir Íslendingar. Þessi skattur rennur m.a. í velferðarkerfið. Það er mjög mikilvægt að gæta að því hvernig velferðarkerfið er með hliðsjón af þeim sem eru vinnandi.

Ég hef hugleitt hvernig það væri ef Tryggingastofnun yrði breytt í lífeyrissjóð, þ.e. lífeyrissjóð þeirra sem ekki hefðu tekjur og ríkið mundi borga iðgjöld fyrir þá inn í þann lífeyrissjóð. Þetta er mín forneskjulega hugsun að mati hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem fór af þingfundi þó ég hefði sagt að ég mundi í ræðu fjalla um þær árásir sem hann beindi til mín.

Núverandi kerfi er flókið, þar tvinnast saman margir þættir og bara Tryggingastofnun borgar 150 tegundir lífeyris. Síðan koma skaðabótalög. Barnabótum er útdeilt samkvæmt skattalögum. Auk þessa þarf að reikna með vaxtabótum og húsaleigubótum, þar koma sveitarfélögin að. Ég gat þess aukalega að Kópavogsbær, til viðbótar við allar aðrar bætur, væri með ókeypis mat fyrir þá sem vildu. Menn þurfa ekki að sækja um það. Það er engin ölmusa heldur matur á veitingastað. Þetta er tekið sem dæmi um að menn þurfi að sækja um ölmusu hjá Kópavogsbæ. Hugsið ykkur, hv. þm. Herra forseti. Öryrkjar og aldraðir fá líka ókeypis í sund á meðan launþegar þurfa að borga í sund. Það þykir eðlilegt en þetta eru bætur sem aldrei er minnst á. Þeir fá ódýrara far með strætisvögnum og það eru alls konar ívilnanir til öryrkja hér og þar. Allt þetta þarf að taka með í myndina þegar menn skoða velferðarkerfið í heild sinni. Umræða um að fleiri þúsund manns séu fátækir á Íslandi og ekkert meir, ekki orð um það meir, bara fullyrðing sem svífur í loftinu, er náttúrlega ekki til þess að þróa velferðarkerfið.

Auðvitað eru agnúar á velferðarkerfinu. Auðvitað er til fólk sem líður illa og þarf að huga að. Það er mjög mikilvægt að finna þá aðila en það gerist ekki með upphrópunum. Það er mikilvægt að finna þá sem eru út undan í velferðarkerfinu í dag og bæta stöðu þeirra með breytingum. En í þær breytingar verður að fara mjög varlega og útfæra vel til þess að þær búi ekki til enn meiri rökleysu í kerfinu.

Ég hef bent á Lánasjóð ísl. námsmanna sem dæmi um það hvernig kerfið getur keyrt fram úr sér í oftryggingu. Einstæð móðir með tvö börn getur verið með 190 þús. kr. á mánuði allt árið um kring, borgað enga skatta og engin gjöld og yfir helmingurinn af ráðstöfunartekjum eru ekki lán. Þetta dæmi hef ég reiknað út og það er á netinu.

Þarna hafa menn horft á eina skúffu og sagt: Hér er staðan slæm, við lögum það. En þeir gleyma heildaráhrifunum. Það sem ég hef verið að benda á er að það þurfi að líta á allt velferðarkerfið í heild sinni í hvert sinn sem því er breytt. En það hafa menn ekki gert hingað til. Menn hafa alltaf litið á eina skúffu og lagað hana og afleiðingin er óskaplega flókið kerfi sem nánast enginn botnar í, enginn skilur til hlítar, enginn. Ég fullyrði það.

Ég held að brýnasta verkefni næstu ára væri að einfalda kerfið með grundvallarbreytingum. Á að taka tillit til fjölskyldu? Á ekki að taka tillit til fjölskyldu? Ætlum við að taka tillit til sérstakrar stöðu einstæðra foreldra eða ætlum við ekki að gera það? Svona hugleiðingar verða að koma inn og þegar menn hafa komist að niðurstöðu um hvernig eigi að taka tillit til fjölskyldunnar þá geta menn farið að þróa kerfið áfram á rökréttan hátt.

Ég sagði áðan að ég væri einstaklingshyggjumaður og væri í sjálfu sér ánægður með þá einstaklingshyggju sem skín út úr frv. sem við ræðum hér. Þetta er einstaklingshyggja. Það á bara að líta á einstaklinginn, ekki á stöðu hans í fjölskyldu eða annað slíkt. En þá eigum við líka að líta á allt velferðarkerfið í heild sinni. Ætlum við að hafa einstaklingshyggju alls staðar? Þá verðum við að breyta því þannig en ekki bara einum þætti.

Bent hefur verið á að atvinnuleysisbætur séu einstaklingsbætur. Það er vegna þess að víðast hvar í útlöndum, þaðan sem fyrirmynd þeirra er sótt, er atvinnuleysistryggingagjald, iðgjald, inn í atvinnuleysistryggingasjóði. Nýverið var það líka tekið upp hér á landi að hluti af tryggingagjaldinu er atvinnuleysistryggingagjald. Þá er eðlilegt, þar sem menn borga fyrir trygginguna, að menn fái hana greidda. Í sjálfu sér ættu atvinnuleysisbætur að vera háðar tekjum vegna þess að iðgjaldið er háð tekjum en það er önnur umræða sem líka þarf að taka upp. Eiga bætur að vera háðar þeim tekjum sem greitt var af eins og bætur lífeyrissjóðanna? Sá sem borgaði tvöfalt iðgjald til lífeyrissjóða fær tvöfaldan lífeyri, svo einfalt er það. Það eru svona fræðilegar grundvallarspurningar og skilgreiningar sem menn verða að taka upp í stað yfirborðskenndra leiðréttinga þar sem klastrað er bótum á flíkina hingað og þangað þar til kerfið verður gersamlega óskiljanlegt.

Félagsráðgjafar hafa sagt mér að 75% af tíma þeirra fari í að finna bætur fyrir skjólstæðinga sína í þessu flókna kerfi, ekki að aðstoða þá á annan máta heldur bara að finna bætur. Ég trúi þessu vegna þess að kerfið er orðið óskaplega flókið. Ég er fullviss um að það er fullt af fólki sem ætti rétt á bótum en veit ekki af þeim. Ég ræddi meira að segja við einn örykja norður í landi, bónda, sem vissi ekki að maki hans ætti rétt á lífeyri úr Lífeyrissjóði bænda og úr öðrum lífeyrissjóði, örorkulífeyri. Ég geri ráð fyrir að þau hafi sótt um það daginn eftir. Þau vissu bara ekki af þessu.